136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:54]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það ferli sem hv. þm. Birgir Ármannsson er að vitna til er síðasta tilraunin sem var gerð til að breyta stjórnarskránni. Þá settust flokkarnir niður og allt koðnaði niður, það kom ekkert út úr því af því að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn voru aðallega að rífast um forsetaembættið. En það fæddist þessi mús, þessi málamiðlunartillaga um hvernig ætti að breyta stjórnarskránni og það var ekki góð tillaga. Þegar meiri hlutinn leyfir sér, allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn — nema hluti Sjálfstæðisflokksins ætti kannski að segja af því að hér komu þingmenn upp frá Sjálfstæðisflokknum og vildu fallast á 79. gr., en síðan kemur Sjálfstæðisflokkurinn upp og dustar rykið af þessari gömlu tillögu og vill fá hana í gegn, tillögu sem eykur líkurnar á því að Sjálfstæðisflokkurinn geti beitt neitunarvaldi á næsta kjörtímabili gagnvart því að breyta stjórnarskránni. Það sjá allir í gegnum þetta, virðulegi forseti. Að sjálfsögðu verður þessari tillögu hafnað hér.