136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:55]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er sennilega rétt að taka málið upp þar sem hv. þingmenn voru að enda, um þá neyðarlausn sem menn reyndu að búa til í lok samstarfsins í stjórnarskrárnefndinni þegar menn sáu að það kom eiginlega ekkert út úr því. Það var svolítið neyðarlegt að sitja í þessu í tvö ár og koma ekki með einn einasta texta. Þar af leiðandi reyndi nefndin að teygja sig talsvert í því að reyna að finna einhvern farveg sem hugsanlega gæti opnað á það að þjóðin fengi að kjósa beint um stjórnlagabreytingar. En í þessari tillögu voru margar girðingar og þegar hún er skoðuð í ljósi tímans kemur auðvitað í ljós að þær girðingar eru gersamlega óviðunandi.

Þegar hv. þm. Birgir Ármannsson furðar sig á því að menn gætu breytt skoðunum sínum á tveggja ára fresti þá held ég að hv. þingmaður ætti að líta í eigin barm í því ferli sem við höfum verið í í stjórnarskrárnefndinni og hvað Sjálfstæðisflokkurinn hefur sagt og hvað hann hefur svo lagt til. Hvað ætli þeir segðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins í umræðunni? Jú, 2. gr., já, allt í lagi með 2. gr. við getum alveg hugsað okkur að afgreiða hana. Þegar á átti að reyna með það þá var það ekki nokkur leið, komið inn með aukinn meiri hluta þingmanna og hærri girðingar o.s.frv. Mér finnst því að menn ættu ekki að vera að velta sér mikið upp úr því þó að menn skipti kannski um skoðun á tveggja ára fresti þegar Sjálfstæðisflokknum tekst að gera það dags daglega fram og til baka og aftur á bak og áfram, eins og í öllu þessu máli.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað staðið þessa vakt vel, þ.e. vaktina gegn því að þjóðin fái aukin réttindi, hann hefur staðið þá vakt vel og dyggilega, haldið hundrað ræður um það eða mörg hundruð ræður. En út á hvað gengur sú vakt? Sú vakt sjálfstæðismanna hefur fyrst og fremst gengið út á það að vernda sérhagsmuni, tryggja sérhagsmuni gegn almannahagsmunum, vernda sérhagsmuni gegn almannahagsmunum, festa í sessi þau ákvæði sem hugsanlega gætu orðið með áframhaldandi óbreyttri stjórnarskrá og lögum, festa í sessi hefðarrétt íslenskra útgerðarmanna til að eiga aflaheimildirnar í sjónum og að þær erfist til barna þeirra, barnabarna og barnabarnabarna, um aldur og ævi. Það er hin sérstaka vakt sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið í öllu þessu máli.

Það er alveg með ólíkindum að upplifa það hvernig menn hugsa þessi mál, að vilja verja sérhagsmunina gegn almannahagsmunum og koma í veg fyrir að þjóðin eigi auðlind sína og að hana megi ekki selja eða láta varanlega af hendi. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að þetta veldur mér miklum vonbrigðum. (Gripið fram í: Það kemur ekki á óvart.)

Nýlega gekk einn þingmaður til liðs við Sjálfstæðisflokkinn úr röðum Frjálslyndra sem var búinn að skrifa um það í 6–10 ár að reyna að verja hagsmuni almennings í þessu máli, auðlindamálinu. Þvílík umskipti.

Það virðist svo að menn séu ævinlega tilbúnir til að falla frá sannfæringu sinni þegar þeir komast inn í Sjálfstæðisflokkinn og verja einhver allt önnur sjónarmið sem ganga gegn hagsmunum þjóðarinnar. (Gripið fram í: Þú þekkir flokkinn.) Ég var þar einu sinni og komst að þeirri niðurstöðu að þar gæti maður ekki verið ef maður ætlaði að reyna að fylgja sannfæringu sinni í þeim málum er varða auðlindir þjóðarinnar.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að það hefur valdið mér vonbrigðum að Sjálfstæðisflokkurinn skuli hafa tekið þá vaktstöðu sem hann tók fyrir sérhagsmunum. Það hefur valdið mér vonbrigðum. Það verður líka að segjast alveg eins og er, hæstv. forseti, að það veldur mér einnig vonbrigðum hversu harðir sjálfstæðismenn voru á móti 3. gr., um það að þjóðin gæti fengið að kjósa um umdeild mál, mikil deilumál sem þjóðin átti rétt á að gengju til þjóðaratkvæðis og hún fengi að kjósa um. Það veldur mér vonbrigðum að menn skyldu hafa staðið þá vakt af slíkri hörku sem komið hefur í ljós.

Sjálfstæðismenn verða auðvitað að svara því gagnvart þjóðinni og væntanlega gera það í komandi kosningabaráttu, þeir sem þar verða, ekki endilega Björn Bjarnason eða aðrir sem ekki verða í þeirri baráttu, en þeir sem verða í þeirri baráttu verða að svara því hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn tekur sérhagsmunina fram fyrir almannahagsmuni og kemur í veg fyrir það með verkum sínum að þjóðin eignist auðlindir sínar um aldur og ævi og að þær megi eingöngu ráðstafa til nýtingar og notkunar en ekki láta varanlega af hendi eða selja varanlega. Og hitt líka, hvers vegna þjóðin getur ekki fengið til sín mál sem eru mikil hitamál í þjóðfélaginu til að greiða um þau atkvæði lýðræðislega þannig að meirihlutaviljinn komi í ljós. Við verðum auðvitað að beygja okkur undir það í þjóðfélaginu að það sem þjóðin vill, jafnvel þótt við séum ekki sammála málum sem ganga til þjóðaratkvæðis að meiri hlutinn ráði. Það er lýðræðið. Lýðræðið hefur ekki birst í vaktstöðu minni hlutans á Alþingi til að koma í veg fyrir framgang þessa máls, hæstv. forseti. Það er leitt að málið skyldi hafa endað svona.