136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þessa dagana verðum við vitni að undarlegum og dapurlegum lokum á 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þæfst hér og tafið framgang mikilla þjóðþrifabreytinga á stjórnarskrá lýðveldisins á undanförnum vikum. Hann hefur farið fram með fals og yfirdrepsskap. Hann hefur gefið í skyn að hann væri tilbúinn að standa að breytingum sem mundu tryggja þjóðareign á auðlindum, sem mundu auðvelda breytingar á stjórnarskrá, en svo stendur hann gegn því þegar á hólminn er komið. Ekki er orð að marka nokkurn hlut sem forustumenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt hér á undanförnum vikum.

Þeir standa gegn því að efna gamalt loforð sem þeir gáfu fyrst Framsóknarflokknum við ríkisstjórnarmyndun og svo Samfylkingunni við ríkisstjórnarmyndun 2007, um að sett yrði í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Sú tillaga sem frá Sjálfstæðisflokknum kemur nú hljóðar upp á að sett verði ákvæði í stjórnarskrána sem fjalli um allt annað en þjóðareign á auðlindum, sem fjalli um það hvernig fara skuli með handhöfn ríkisins á auðlindum sem ekki eru í einkaeigu. Það eru ekki ákvæði um þjóðareign á auðlindum vegna þess að orðið þjóðareign vantar einfaldlega í ákvæðið eins og lagt er upp með það.

Í hádegisfréttum útvarps voru leikin ummæli hv. þm. Geirs H. Haarde, hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og hv. þm. Bjarna Benediktssonar þar sem þau lýsa því öll yfir að þau séu tilbúin að styðja breytingar á stjórnarskrá sem auðveldi stjórnarskrárbreytingar í framtíðinni, þannig að ekki (Gripið fram í.) þurfi samþykki tveggja þinga til.

Þessi fyrirheit voru skýrt gefin. Alveg skýrt. Hvað gerist svo núna? Sjálfstæðisflokkurinn, til þess að standa vörð um óbreytt ástand, til að standa gegn því að þjóðin fái að koma að ákvörðunum um stjórnarskrána, leggur fram breytingartillögur sem munu þvert á móti torvelda breytingar á stjórnarskrá frá því sem nú er. Áskilja tvo þriðju þings til samþykktar og ef það tekst ekki þá dugir ekki lengur samþykki einfalds meiri hluta tveggja þinga heldur á til viðbótar að koma þjóðaratkvæðagreiðsla. Með öðrum orðum er verið að gera ríkari kröfur en nú eru um formlegheit við breytingar á stjórnarskrá. Það er verið að torvelda breytingar á stjórnarskránni.

Af hverju er verið að gera þetta? Spyr sá sem ekki veit. En maður hlýtur að geta sér þess til að Sjálfstæðisflokkurinn standi hér sem fyrr vörð um sérhagsmuni gegn almannahagsmunum. Hann er að verja hagsmuni kvótaauðvaldsins sem hann hefur verið að sendast fyrir undanfarin ár. Hann er að reyna að torvelda leið okkar til þess að breyta stjórnarskrá, til þess að við getum gengið í Evrópusambandið á næsta kjörtímabili. Sjálfstæðisflokkurinn gengur skýrt á bak orða sinna, það er engin leið að eiga orðastað við þennan flokk með siðuðum hætti hér í sölum Alþingis. Hann stendur ekki við nokkurn skapaðan hlut sem sagt er af hálfu forustumanna flokksins í umræðunni. Eftir stendur að höfuðerindi flokksins í stjórnarskrármálinu er að standa vörð um sérhagsmunina, koma í veg fyrir að ákvæði um þjóðareign á auðlindum verði samþykkt, koma í veg fyrir að auðvelt verði að breyta stjórnarskránni, gera það erfiðara og flóknara að breyta henni og gera það nær ómögulegt að breyta henni án tveggja þingkosninga, þvert á það sem fyrirheit voru gefin um áður.

Ekki er orð að marka yfirlýsingar Geirs H. Haardes, ekki orð að marka yfirlýsingar hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og ekki orð að marka yfirlýsingar hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Öll eru þau orðin ómerkingar orða sinna. Sjálfstæðisflokkurinn gerir forustufólk sitt að ómerkingum orða sinna. Kemur þannig fram að það er greinilega ekkert að marka þau fyrirheit sem gefin eru af hálfu forustumanna flokksins.

Auðvitað torveldar þetta öll þingleg vinnubrögð, virðulegi forseti. Auðvitað er það ekki til mikils sóma að þurfa að horfa upp á vel á áttunda hundrað ræður Sjálfstæðisflokksins til þess að koma í veg fyrir að meiri hlutinn fái vilja sínum framgengt. Málþóf af þessum toga er einsdæmi í þingsögunni. Það er einsdæmi í þingsögunni að flokkur komi með þessum hætti í veg fyrir að meiri hluti fái að koma fram málum sem skýr þingmeirihluti er fyrir.

Þetta er dapurlegur endir, virðulegi forseti, á 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn sýnir þjóðinni nú með skýrum hætti fyrir hvað hann stendur. Hann vill standa í vegi fyrir því að þjóðareign verði tryggð á auðlindum í stjórnarskrá. Hann vill torvelda leið okkar í Evrópusambandið. Hann vill með öðrum orðum standa í vegi helstu framfaramála sem við þurfum að taka ákvörðun um og hann vill standa gegn rétti almennings til þjóðaratkvæðagreiðslna.