136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur séð um ræðuhöld í þessu máli. Af hálfu Samfylkingarinnar hafa góðir félagar mínir flutt ágætar ræður og hef ég ekki séð ástæðu til að orðlengja það eða drepa umræðunni á dreif. Sjálfstæðismenn hafa séð um að draga hana á langinn. Það er alveg ljóst að meiri hluti þingsins vildi sjá í stjórnarskránni ákvæði um að auðlindir væru í almannaeigu, í þjóðareigu.

Það er líka ljóst að það ákvæði sem ætlunin var að hafa í 79. gr. stjórnarskrárinnar átti að gera það kleift að breyta stjórnarskránni með þjóðaratkvæðagreiðslu á miðju kjörtímabili. Það hefði t.d. einfaldað og auðveldað leið okkar í Evrópusambandið á næsta kjörtímabili og það eru brýnir hagsmunir atvinnulífsins. Ég legg til að hv. þingmaður fari að tala við atvinnulífið um hag þess, (Forseti hringir.) hann þykist jú bera hag þess fyrir brjósti, og átta sig á því hve (Forseti hringir.) mikilvægt það er að við höfum opnað þessa leið nú þegar (Forseti hringir.) ástand efnahagsmála er eins og það er.