136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:20]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má eiginlega segja að hv. þingmaður hafi gengið algjörlega beint í gildruna sem hann lagði út sjálfur vegna þess að hann vitnaði einmitt til þeirra laga frá 1990 sem eru undirrót að deilunum um stjórn fiskveiða og auðlindanýtingu, lögin frá 1990, um stjórn fiskveiða, þar sem framsalið var heimilað að undirlagi Alþýðuflokksins og hann gat réttilega um það. Framsóknarflokkurinn hafði forustu um það, höfundurinn er staðfestur hér af hv. þm. Árna Páli Árnasyni að hafi verið Jón Sigurðsson höfuðráðgjafi Samfylkingarinnar í efnahagsmálum. (Gripið fram í.) Já, höfundur framsalskerfisins. Það er mjög mikilvægt að fá þetta fram og er mikilvægt innlegg í þessa umræðu alla, en ég hvet hv. þingmann aftur til þess að gæta hófs í þessum umræðum öllum því að Alþingi þarf á því að halda að (Forseti hringir.) hér sé aukin virðing fyrir samstarfsmönnum í hópi þingmanna.