136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jón Sigurðsson á heiðurinn af 1. gr. eins og ég nefndi, ég ætla ekki að eigna honum heiðurinn af lögunum um stjórn fiskveiða að öðru leyti. (Gripið fram í.) Það eru nú aðrir sem eiga upphafið að þeim.

Það sem eftir stendur í þessu máli og er sá lærdómur sem þjóðin þarf að draga af framgöngu Sjálfstæðisflokksins er að Sjálfstæðisflokknum er greinilega ekkert heilagt þegar kemur að meðferð mála hér í þinginu, meðferð grundvallarmála. Það er ekki hægt að semja við flokkinn, ekki er hægt að taka trúanlegar yfirlýsingar forustumanna hans vegna þess að þeir hlaupast burt frá ítrekuðum loforðum. Flokknum finnst ekkert að því að gera formann sinn, fyrrverandi formann og varaformann flokksins alla að ómerkingum. Það gerir Sjálfstæðisflokkurinn purkunarlaust með því að koma með tillögur um að þrengja möguleika til að (Forseti hringir.) breyta stjórnarskránni þvert ofan í gefin loforð Geirs H. Haardes, (Forseti hringir.) Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Bjarna Benediktssonar um að þau skyldu standa að því að gera breytingar auðveldari á stjórnarskránni.