136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít svo að hv. þingmaður sé ekki að saka okkur um að ganga gegn stjórnarskránni og það er gott að það sé hreinsað út úr umræðunni.

Mig langaði einnig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það stjórnlagaþing sem efnt var til 1851 og hefur gengið undir nafninu þjóðfundurinn, burt séð frá því hver staða þingsins var á þeim tíma, það er ekki atriði í þessari umræðu, þá var efnt til stjórnlagaþings. Telur hv. þingmaður að sú ákvörðun að efna til stjórnlagaþings sé blettur á sögu þjóðarinnar? Eða hvernig má skilja það þegar hv. þingmaður segir að aldrei komi til álita að þingið sé sett til hliðar þegar verið er að tala um breytingar á stjórnarskrá — það var gert þegar þingið var endurreist 1845, staða þess hafði verið önnur, en þá var efnt til stjórnlagaþings í því skyni að endurskoða eða skapa stjórnarskrá, (Forseti hringir.) það var tilefni fundarins.