136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:34]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er skemmtilegt að rifja upp þjóðfundinn frá 1851 sem sérstaklega er minnst í Alþingishúsinu með eftirminnilegri mynd í fordyrinu. Þar var gerð tilraun til eins konar stjórnlagaþings, það er rétt. Það lá við stórslysi þar. „Vér mótmælum allir,“ sagði Jón Sigurðsson (Gripið fram í: Hvers vegna var það?) sem hér vakir yfir okkur. Að bera þetta saman við aðstæður sem þá voru, löngu áður en við fengum fullveldi og löngu áður en lýðveldið og þingræðið fór að virka á Íslandi — þetta er algjörlega ósambærilegt. Ég tel að við eigum að fara að tillögu okkar sjálfstæðismanna, setja á fót öfluga og stóra nefnd sem leitar samstarfs vítt og breitt í samfélaginu, (Forseti hringir.) sem undirbýr breytingar á stjórnarskránni (Forseti hringir.) sem Alþingi Íslendinga fjallar um og afgreiðir.