136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að víkja að nokkrum atriðum í þessu frumvarpi í ræðu minni en tíminn er knappur þannig að ég verð að fara hratt yfir sögu og get ekki drepið á alla þá þætti sem skipta máli.

Vegna þeirra orðaskipta sem áttu sér stað milli hv. þingmanna rétt í þessu um stjórnlagaþing og þess háttar verð ég að segja að stjórnlagaþingið var auðvitað ótækt eins og það var lagt upp í upprunalegu frumvarpi og það batnaði lítið, þó að það yrði vissulega ódýrara batnaði það lítið í þeirri útfærslu sem birtist í breytingartillögum meiri hlutans. Þess vegna skal það auðvitað viðurkennt að það var mikið framfaraskref í sambandi við meðferð þessa máls þegar fram kom að af hálfu flutningsmanna væri mönnum það ekki fast í hendi ef samkomulag gæti náðst að halda stjórnlagaþinginu inni. En bara til að undirstrika að það hefðu verið vandamál fylgjandi því að samþykkja frumvarpið eins og það kom upprunalega fram og reyndar eftir því sem það var í breytingartillögunum líka, m.a. vegna þess fyrirkomulags sem hv. þm. Jón Magnússon vék að áðan að á sama tíma og verið var að afgreiða stjórnarskrárbreytingar, sem annars vegar fólu í sér heimild fyrir Alþingi að fjalla um stjórnarskrárbreytingar eftir tilteknum reglum, átti að vera að störfum stjórnlagaþing sem gat breytt stjórnarskrá eftir tilteknum reglum. Það var þetta sem stakk í augun, var rökleysa að mati okkar sjálfstæðismanna og til þess fallið að skapa stjórnskipulega ringulreið.

Varðandi ákvæði frumvarpsins að öðru leyti hef ég margoft sagt að með vandaðri vinnu, vönduðum undirbúningi og víðtækri sátt hefði verið hægt að ná fram ýmsum af þeim atriðum sem þar er að finna og því hefur aldrei verið hafnað. En eins og kom fram hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni áðan fólust yfirlýsingar okkar sjálfstæðismanna um það að við værum reiðubúnir til að semja um útfærslu þeirra atriða sem þar er að finna ekki í sér skuldbindingu til að taka tillögunum eins og þær litu út af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.

Í dag hefur hvað mest verið rætt um breytingartillögur okkar sjálfstæðismanna. Ég ítreka að breytingartillaga okkar varðandi ákvæðið um hvernig breyta eigi stjórnarskrá er orðrétt sama ákvæði og sátt var um í stjórnarskrárnefndinni í febrúar 2007 og því var ekki óeðlilegt að við sjálfstæðismenn teldum að það gætu verið forsendur til að nota þá niðurstöðu sem grundvöll sáttar núna. Við höfðum auðvitað væntingar um að það hefðu ekki orðið þær grundvallarbreytingar á sjónarmiðum manna að slíkt væri ómögulegt.

Varðandi hins vegar 1. gr. og vangaveltur um hana finnst mér rétt að hnykkja á því sem fram kom í andsvari hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar áðan að það sé rangt og rangtúlkun að halda því fram að tillöguflutningur okkar sjálfstæðismanna í þessu máli feli í sér einhverja varðstöðu um hagsmuni kvótaeigenda eða kvótahafa. Ég minni á það, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerði, að í framsöguræðu fyrir frumvarpinu tók hæstv. forsætisráðherra skýrt fram að svo væri ekki. Hún sagði, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að hafa í huga að þessu nýja stjórnarskrárákvæði er ekki ætlað að svipta menn þeim réttindum sem þeir hafa öðlast, svo sem afnotarétti af náttúruauðlindum eða atvinnuréttindum á grundvelli opinberra leyfa sem kunna að njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar sem óbein eignarréttindi. Með ákvæðinu er til dæmis ekki haggað við slíkum réttindum þeirra sem hagnýta jarðir og ýmis fasteignatengd réttindi eða stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda.“

Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra í framsöguræðu sinni og þegar hv. þm. Geir H. Haarde spurði ráðherrann um þetta í umræðunni svaraði hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort þau ákvæði sem eru í frumvarpinu haggi í engu núverandi kvótakerfi. Ég kom mjög inn á það atriði í máli mínu og tel mikilvægt að árétta að stjórnarskrárákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign muni ekki skerða réttindi þeirra sem hafa veiðiheimildir í kvótakerfinu eða svipta þá kvótanum. Þau réttindi munu eftir sem áður njóta verndar sem atvinnuréttindi þeirra er stunda útgerð eða með öðrum orðum sem óbein eignarréttindi.“

Það var sem sagt ekki ætlunin með stjórnarskrárfrumvarpinu hagga grundvelli núverandi kvótakerfis eða hagsmunum þeirra sem eru handhafar kvótans. Það að halda því fram að við með tillöguflutningi okkar séum með einhverjum sérstökum hætti að standa vörð um sægreifana eða útgerðarauðvaldið, svo vitnað sé til orða hæstv. utanríkisráðherra í gær, er auðvitað bara lýðskrum þegar horft er til þess að tillögur ríkisstjórnarflokkanna og félaga þeirra í þinginu ganga heldur ekki út á það að raska réttindum handhafa kvóta. Það var einfaldlega ekki inni í frumvarpinu. Það snerist ekki um það. Þess vegna er sú túlkun sem hér hefur verið mjög uppi af hálfu andstæðinga okkar sjálfstæðismanna alröng og á sér enga stoð í efni málsins.