136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:00]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að hæstv. forsætisráðherra vill leggja mjög mikið á sig til þess að þetta mál geti orðið að lögum. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að óska eftir því að hún sé hér viðstödd. Málið er þó á hennar forræði. Það er hún sem flytur málið. Það er hún sem hefur viljað framgang þess hér. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að hún fylgist með umræðum og framvindu málsins í þinginu og að ég tali nú ekki um aðra flutningsmenn þessa máls sem ekki hafa látið svo lítið að vera við umræðuna í dag sem var eiginlega búið að semja um að við mundum vera að ljúka um þessar mundir.

En hv. þm. (Gripið fram í: … formaður Sjálfstæðisflokksins.) Árni Þór Sigurðsson hefur ákveðið að kalla hér eftir formanni Sjálfstæðisflokksins. Ég hlýt þá að spyrja hv. þingmann af hvaða tilefni það sé. Er það eitthvað í tillögum hæstv. forsætisráðherra sem þarf (Forseti hringir.) að ræða við formann Sjálfstæðisflokksins? (Forseti hringir.)