136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það væri mjög æskilegt að sem flestir forustumenn flokkanna væru viðstaddir þá umræðu sem hér fer fram um þetta mikilvæga mál.

Á hinn bóginn vildi ég aðeins upplýsa hv. þm. Pétur H. Blöndal sem kom hér með athyglisverðan vinkil og ítrekaði fyrri ræður sem hann hefur flutt um það sem hann kallar rökleysu en ég sjálfur á mjög erfitt með að skilja rökleysuna sem í hans málflutningi hefur falist.

Framsóknarmenn lögðu til leið til sáttar til þess að ljúka málinu. Það var að hugmynd, sem þeir hafa barist mikið fyrir um stjórnlagaþing, yrði dregin til baka. Á sáttarhönd þeirra var slegið af fullum þunga og af þeim sökum þótti ekkert tilefni til að leggja fram sérstaka tillögu um að draga þá hugmynd til baka, þegar enginn vilji var hjá þeim stjórnmálaflokki sem telur það sitt helsta hlutverk að standa vörð um óbreytt ástand, að stíga skref í átt til sáttar.