136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þm. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins er kominn til þessar umræðu. Ég óskaði sérstaklega eftir því að hann yrði viðstaddur ef hann ætti þess nokkurn kost af því ég hafði áhuga á því að eiga nokkurn orðastað við hann um það mál sem hér er til umræðu.

Við erum að fjalla um frumvarp til stjórnarskipunarlaga, breytingar á stjórnarskránni sem lagt var fram fyrr á þessu þingi, fyrr í vetur af formönnum eða fulltrúum fjögurra stjórnmálaflokka, allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna þingmenn um að það er eingöngu einn fundur í einu í þingsalnum.)

Fulltrúar fjögurra flokka af fimm eru flutningsmenn þessa frumvarps. Í meginatriðum eru efnisatriði frumvarpsins þau að bætt verði í stjórnarskrána ákvæði um að náttúruauðlindir skuli vera í þjóðareign. Í öðru lagi að aðferðinni við að breyta stjórnarskránni verði breytt og hún gerð straumlínulagaðri og einfaldari og því verði vísað til þjóðarinnar að breyta stjórnarskránni. Í þriðja lagi að tiltekinn hluti kjósenda geti krafist þess að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um mál sem varða almannahag. Og í fjórða lagi að bætt verði í stjórnarskrána ákvæði um stundarsakir um stjórnlagaþing.

Allt hefur þetta mál fengið ítarlega umræðu í þinginu og það kom fram strax í upphafi að sjálfstæðismenn gerðu og ætluðu sér að gera atlögu að því að reyna að stöðva það að þetta mál fengi framgang hér á vettvangi Alþingis. Í fyrsta lagi var í upphafi gerð athugasemd við formið á málinu. Það að ekki hefði verið haft samráð við Sjálfstæðisflokkinn um flutning málsins. Sjálfstæðismenn hafa lagt mikið upp úr því að ekki séu mörg dæmi um það í sögunni að þannig sé staðið að stjórnarskrárbreytingum. Engu að síður er það staðreynd að fjórir flokkar af fimm eru áhugasamir um að ná fram þessum breytingum á stjórnarskránni.

Það mátti líka ætla af málflutningi Sjálfstæðisflokksins í upphafi að hann væri sammála að minnsta kosti sumum þeirra breytinga sem hér voru lagðar til og það væri hugsanlegt að hægt væri að ná samstöðu um einhverjar breytingar á stjórnarskránni sérstaklega hvað varðaði auðlindir í þjóðareigu og að því er varðaði aðferðafræðina við að breyta stjórnarskránni.

Það eru því mikil vonbrigði þegar það kemur síðan á daginn að allur sá leiðangur sem lagt var í í þeim tilgangi að ná einhverri samstöðu um málið var til einskis. Það var sem sagt í raun bersýnilegt allan tímann að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði ekki að hleypa neinum af þessum ákvæðum stjórnarskrárbreytinga frumvarpsins í gegn.

Fyrst var gripið til formsins. Síðan var eitt efnisatriði af öðru tekið fyrir þar til ekkert stóð eftir. Sjálfstæðismenn hafa líka breytt um málflutning í þessu máli. Vegna þess að í upphafi og þegar lesnar eru ræður fulltrúa Sjálfstæðisflokksins við 1. umr. þá mátti draga þá ályktun að flokkurinn væri reiðubúinn til þess að standa að tilteknum hlutum.

Þess vegna var farið í það að reyna að leita sátta. Þess vegna var farið í það að kanna hvort samstaða gæti tekist um að tilteknir hlutar yrðu teknir út úr frumvarpinu eins og ákvæðið um stjórnlagaþingið og jafnvel um þjóðaratkvæðagreiðslur þó að það hafi verið mörgum okkar, þingmönnum, þvert um geð. Vegna þess að við teljum að þetta mál snúist ekki síst um að koma til móts við að endurspegla þá lýðræðishreyfingu, lýðræðisvæðingu, lýðræðiskröfur sem hafa endurrómað um samfélagið undanfarna mánuði, allt frá hruninu í haust.

Mér hefur þótt dapurlegt horfa á Sjálfstæðisflokkinn í þessari umræðu sökkva dýpra og dýpra í forarvilpu andlýðræðis. Því það er það sem við höfum verið að horfa upp á. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt það að hann er ekki reiðubúinn til þess að setja inn í stjórnarskrána ákvæði um að þjóðin eða tiltekinn hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðis um tiltekin mál. Hann hefur ekki reynst reiðubúinn til þess að kveða á um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindunum og hann hefur ekki reynst viljugur til þess að taka inn stjórnlagaþing og hann hefur ekki reynst fús til þess að gera breytingar á stjórnarskránni að því er varðar breytingar á aðferðarfræðinni, hvernig stjórnarskránni er breytt.

Þetta er dapurlegt, virðulegi forseti, og sýnir okkur að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði sér aldrei að ná neinni samstöðu um þetta mál. Mér hefur fundist að sjálfstæðismenn séu í raun ómerkingar orða sinna. Vegna þess að þegar það er skoðað hvernig þeir hafa staðið að vinnunni í sérnefndinni þá hafa þeir flúið úr einu vígi í annað. Þeir hafa breytt um afstöðu. Þeir hafa komið með tillögur sem búið var að fjalla um og hafna og síðan komið með ný skilyrði til þess að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn gæti haft úrslitaáhrif um það með hvaða hætti eða hvaða breytingar yrðu gerðar á stjórnarskránni til framtíðar, a.m.k. þegar horft er á stöðu þeirra á fylgi svona í sögulegu ljósi, sem vonandi sér nú fyrir endann á.

Það sem ég vil þess vegna spyrja formann Sjálfstæðisflokksins að, nýkjörinn formann Sjálfstæðisflokksins sem nú er kominn til starfa og maður hefði haldið að þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson tæki við formennsku í Sjálfstæðisflokknum þá hefði mátt búast við nýrri sýn, nýjum vinnubrögðum af hálfu Sjálfstæðisflokksins: Hvar er lýðræðishugsjón Sjálfstæðisflokksins og Bjarna Benediktssonar snemma á 21. öldinni? Hvaða sýn hefur hann á það að þjóðin eigi sjálf að geta fengið að taka afstöðu til mikilvægra almannahagsmunamála? Hver er afstaða hans til þess að þjóðin eigi að geta tekið ákvörðun um það hvernig stjórnarskráin sjálf er? Er hann sem sagt sokkinn í þetta fen sem gamla valdaklíkan í Sjálfstæðisflokknum er í? Ætlar hann ekki að standa fyrir neinum breytingum, neinni lýðræðisvæðingu á vettvangi eða innan Sjálfstæðisflokksins?

Þetta eru spurningar sem brenna á okkur, virðulegi forseti, og við hljótum að velta því fyrir okkur hvort það verði engin endurnýjun, engin hugmyndafræðileg endurnýjun í Sjálfstæðisflokknum, engin ný sýn á lýðræði í samfélaginu með nýrri forustu Sjálfstæðisflokksins.

Það er þetta sem ég vildi, frú forseti, gjarnan eiga orðastað um við formann Sjálfstæðisflokksins og leita eftir viðbrögðum hans við þessum brýnu spurningum.