136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:17]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem skiptir máli er þetta: Tillagan sem sjálfstæðismenn, fulltrúar í stjórnarskrárnefndinni frá Sjálfstæðisflokknum, lögðu fram byggir á samkomulagi allra flokka frá því fyrir tveimur árum. Aðrar hugmyndir sem hafa verið uppi hafa verið þess eðlis að um þær hefur ekki verið full sátt.

Á þeim skamma tíma sem við höfum haft til ræða þetta mál á þinginu hefur lengst af verið reynt að þvinga málið fram með næturlöngum fundum, dag eftir dag svo sett hafa verið ný met. Það er ekki þannig að menn hafi af yfirvegun og af einhverri skynsemi lagt hér fram að höfðu samráði allra flokka og í kjölfarið á því hugmyndum sem líklegt væri að gætu fengið framgang á þinginu. Mál þetta var vanbúið frá upphafi og menn eiga ekki að standa svona að því að breyta stjórnarskránni.