136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:31]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er loks komið að lokum 136. löggjafarþings. Eftir veru mína á þingi undanfarin tvö ár tel ég nauðsynlegt að fara gaumgæfilega í endurskoðun ekki bara á stjórnarskránni heldur líka á Stjórnarráðinu, á vinnubrögðum og starfsháttum Alþingis, það er svo margt sem þarf að skoða.

Það er þörf á að breyta stjórnarskránni, ég er algjörlega sannfærð um það. Hún þarf að þróast og hún hefur reyndar verið að þróast eins og dæmin sanna. Mannréttindaákvæðið er dæmi frá 1995. Stjórnarskráin okkar er grundvöllur lýðræðis, mannréttinda, laga og réttar hér í landi. Ég þekki ekki dæmi þess að stjórnarskrárbreytingar hafi verið gerðar eða undirbúnar á þann hátt sem minnihlutaríkisstjórnin gerði. Mig langar því að spyrja hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur hvort hún þekki dæmi þess að stjórnarskrá hafi verið breytt á þann hátt sem við ræðum um núna (Forseti hringir.) með rúmlega mánaðarferli og -umræðu og hvort hún telji að slíkt séu fagleg vinnubrögð.