136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:33]
Horfa

Kristrún Heimisdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Það er auðvitað mjög sérkennilegt í íslenskri stjórnskipun að stjórnarskránni hefur alltaf verið breytt á svona stuttum tíma þegar horft er til sögunnar. Það er vegna þess að breyta þarf stjórnarskránni fyrir kosningar og oft og iðulega hefur það verið gert með miklu hraði. Ég er ekki gjörkunnug því hvernig þetta hefur verið gert í öðrum löndum en ég er þeirrar skoðunar að þessi íslenska hefð, sem byggist á því hvernig breytingaraðferðin hefur verið á Íslandi, sé ekki góð. Þess vegna sé mjög mikilvægt að komast út úr þeirri læstu stöðu sem ég nefndi áðan og þannig að hægt sé að gera þetta með öðrum hætti, sú aðferð sem stjórnarskráin mælir fyrir um hefur ekki reynst sérlega vel.