136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil til að byrja með fagna því að hv. þm. Kristrún Heimisdóttir skuli taka þátt í þessari umræðu nú þegar líða tekur að lokum þingsins. Ég held að það hefði verið gagnlegt fyrir umræðuna ef hv. þingmaður hefði tekið meiri þátt í umræðunni á fyrri stigum (Gripið fram í.) og ég er sannfærður (Gripið fram í.) um að forseti hefði rýmkað til (Gripið fram í.) á mælendaskrá eins og honum er heimilt. — Hæstv. forseti, get ég fengið aukatíma vegna frammíkalla hérna? (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Ég bið þingmenn að stilla mál sitt.)

Að öllu gamni slepptu tel ég rétt að gera athugasemd við þann hluta ræðu hv. þingmanns sem vék að kvótakerfinu. Nú liggur fyrir að ekki var ætlunin með frumvarpinu að breyta neinu varðandi kvótakerfið. Las hv. þingmaður frumvarpið einhvern veginn öðruvísi en hæstv. forsætisráðherra gerði hvað það varðar?