136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

almenn hegningarlög.

342. mál
[16:28]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig hafa flett því upp en ég trúi hv. þingmanni þegar hann segir að hann eigi ekki sæti í allsherjarnefnd en ég taldi mig hafa flett því upp áður en ég fór hingað upp í stól. Ég vil samt sem áður inna hann eftir þeirri lýsingu sem kom fram hjá hv. þm. Ólöfu Nordal áðan þegar hún lýsti því að hún kom sem nýr þingmaður í allsherjarnefnd í fyrsta sinn að málinu á þeim tímapunkti sem það var afgreitt út úr nefndinni. Hún sat ekki á þingi á síðasta kjörtímabili. Hún hefur ekki komið að málinu með neinum hætti. Hún kom inn í nefndina með opinn huga til að skoða þessi mál sem önnur mál en það fékk enga umfjöllun. Hún lýsti áðan í ræðu sinni að hún hefði óskað eftir því að fá til nefndarinnar hina ýmsu aðila, þar á meðal Rögnu Árnadóttur, núverandi dómsmálaráðherra, en því var ekki gegnt. Málið fékk enga umfjöllun í allsherjarnefnd og ég bið hv. þingmann sem er hokinn af reynslu að lýsa fyrir mér hver ætti að vera hin rétta lýðræðislega umfjöllun í þessu máli sem og öðrum málum á Alþingi þar sem byggir á því að góð niðurstaða náist með því að þingmenn ræði saman og nái niðurstöðu.