136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

almenn hegningarlög.

342. mál
[16:31]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja varðandi þá umræðu sem hér hefur farið fram að ég skil ekki hvað Sjálfstæðisflokkurinn nennir að ströggla í þessu máli. Það er fyrir neðan allar hellur, finnst mér. Þetta er svo einfalt mál. Þetta eru tvær greinar, önnur er að lögin öðlist þegar gildi sem þarf ekki að útskýra. Og 1. gr. er tvær setningar sem hljóða annars vegar upp á að hver sem lætur af hendi eða heitir greiðslu eða öðrum ávinningi fyrir vændi skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári og hins vegar að hver sem lætur af hendi eða heitir greiðslu eða öðrum ávinningi fyrir vændi barns undir 18 ára aldri skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Hvað er flókið við þetta? Þetta er ofboðslega einfalt. Hér með verður samþykkt að ekki má kaupa vændi. Ef það er gert skal viðkomandi borga sekt eða fara í steininn í eitt ár. Ef það er barn undir 18 ára skal viðkomandi borga sekt eða fara í steininn í allt að tvö ár. Er þetta mjög flókið, virðulegur forseti? Nei, þetta er svo einfalt. Samt er búð að ræða þetta í mörg ár, búið að fara með þetta í nefndir og ég veit ekki hvað og hvað.

Ég minnist þess að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson og fyrrverandi þingmaður Jónína Bjartmarz skiluðu séráliti um þetta á sínum tíma í risadoðranti þar sem farið var yfir málið. Þau skiluðu séráliti og sögðu: Við viljum fara sænsku leiðina. Það ekkert nýtt hérna á ferðinni. Það er búið að ræða þetta í mörg ár.

Kvennasamtökin sem hv. þm. Atli Gíslason las upp sendu frá sér ályktun árið 2003, fyrir sex árum. Það að fara að kvarta undan málsmeðferð er eins og hver annar brandari, virðulegur forseti, í svona einföldu máli þar sem menn hafa farið margoft í gegnum umræðuna. Ég veit að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur margoft tekið þetta mál fyrir.

Virðulegur forseti. Sú er hér stendur er einn af flutningsmönnum þessa máls sem og hv. þm. Eygló Harðardóttir og Helga Sigrún Harðardóttir úr Framsóknarflokknum. Svo eru líka á því fjölmargir þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar.

Ég er afar ánægð með að við séum að klára þetta mál í þinginu. Ég tel næsta víst að það klárist í atkvæðagreiðslu á eftir. Hér innleiðum við sænsku leiðina. Norðmenn hafa líka innleitt hana þannig að við erum að fara leið sem hefur reynst vel og er algjörlega sjálfsagt mál að fari hér í gegn og klárist.

Ég vil nefna að ein kvennasamtökin af þeim 14 sem ályktuðu um þetta haustið 2003 eru Landssamband framsóknarkvenna. Ég vil draga það sérstaklega fram. Þetta eru ein virkustu kvennapólitísku samtökin í landinu og hafa lengi verið, og ég er mjög stolt af því að þær hafi verið með í hópi mjög góðra annarra samtaka sem vilja veg og vanda kvenna sem mestan og vita að þetta er kvenfrelsismál.

Það hefur verið mjög sérstakt að upplifa hér hvernig kaupin hafa gerst á eyrinni við lok þessa þinghalds þar sem reynt er semja mál inn og út af þeim lista sem á að klára. Þetta mál náðist að hafa á listanum. Það náðist hins vegar ekki að halda á listanum öðru máli sem er eiginlega líka tilbúið til afgreiðslu, banni við nektardansi sem ég er flutningsmaður að ásamt fleiri flutningsmönnum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Það mál klárast þá væntanlega á næsta þingi. (Gripið fram í: Á sumarþingi.) Kannski sumarþingi. (Gripið fram í: Í maí.) Ég er mjög ánægð með þetta mál og ætla ekki að lengja ræðutímann hér frekar. Ég styð það heils hugar og tel að þetta mál sé bara hafið yfir allt þetta tog sem hefur verið í þinginu.

Ég vil ljúka ræðu minni á því að þakka sérstaklega hv. þm. og hæstv. ráðherra Kolbrúnu Halldórsdóttur sem hefur staðið vaktina í þessu máli frá upphafi, og ekki bara í þessu máli heldur líka í nektardansmálunum. Ég held að hæstv. ráðherra geti verið stoltur af að hafa komið þessu máli í gegn með aðstoð okkar hinna.