136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

almenn hegningarlög.

342. mál
[16:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög þessum degi þar sem þetta mál er loksins að verða að veruleika eftir sex ára baráttu kvenna á Alþingi, og auðvitað karla líka. Fyrir tæplega sex árum tók ég einmitt þátt í því ásamt hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og öðrum konum sem hér áttu sæti á þingi, utan þingkvenna Sjálfstæðisflokksins, að leggja fram mál um að banna kaup á vændi.

Ég tel þetta mikinn og góðan dag fyrir okkur og ég fagna niðurstöðunni verulega. Hér birtist enn og aftur að samstaða er um þetta, víðtæk þverpólitísk samstaða utan Sjálfstæðisflokksins sem er einangraður í þessu máli eins og svo mörgum öðrum í þinginu þessa dagana. Ég fagna því að sjá líka hversu vel þingið virkar núna, að þingmannamál fái svona afgreiðslu.

Það þarf ekki að orðlengja að þetta mál er gríðarlegt réttlætismál vegna þess að ábyrgð þess sem kaupir líkama annars til sinna afnota hlýtur að vera veruleg. Það er aldrei jafnvægi í slíkum samskiptum. Þegar einn kaupir aðgang og afnot af líkama annarra með peningum býr sá sem selur líkama sinn yfirleitt við afar bágar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður sem kaupandi færir sér í nyt í skjóli almennra hegningarlaga þar sem engin refsing er við því.

Skömmin á auðvitað ekki að liggja hjá þeim sem í neyð sinni selur líkama sinn heldur einmitt hjá þeim sem færir sér neyðina í nyt út frá fjárhagslegum yfirburðum. Vonandi tekst okkur einhvern tímann að útrýma vændi en auðvitað útrýmir þessi aðgerð ein og sér því ekki. Hins vegar innleiðir hún ákveðið gildismat og lýsir því gildismati sem við viljum viðhafa í samfélagi okkar. Við viljum líka að börnin okkar alist upp við það. Það er skref í átt að samfélagi þar sem virðing fyrir manneskjunni er höfð í hávegum og samfélagi þar sem eru skýr skilaboð um að maður kaupir ekki líkama annarrar manneskju til afnota út frá fjárhagslegum yfirburðum. Það eru skilaboðin með þessari lagasetningu og því fagna ég sérstaklega. Enn og aftur, þetta er mikill gleðidagur í mínum huga.

Ég fagna því líka með hve skeleggum hætti meiri hluti allsherjarnefndar afgreiddi þetta mál eftir að það var komið hingað inn og að við skulum standa hér tæpum tveimur mánuðum síðar og afgreiða þetta mál loksins og gera að lögum.