136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[17:21]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er a.m.k. í gadda slegið að orkan á ekki að koma úr neðri Þjórsá, það kemur alveg skýrt fram í þeim samningum og þessu frumvarpi, það kemur sérstaklega fram í samningnum.

Hv. þingmaður ræddi um fjárhagsstöðu Norðuráls. Það er rétt að það komi a.m.k. fram, hvernig sem þróunin er núna með tilliti til þess að það eru miklar dýfur og þrengingar á alþjóðlegum mörkuðum, að Norðurál var skuldlaust við lánastofnanir árið 2008 og það var með sterka sjóðsstöðu. Fyrirtækið greiddi upp skuldir sínar á árinu 2007 með rekstrarafgangi, að vísu líka með framlagi frá móðurfélaginu Century Aluminum. Það er einmitt hinn lági skattur sem við deilum stundum um sem gerir það að verkum að það er hagkvæmt að láta hagnaðinn koma fram hér á landi í samstarfi af þessu tagi.

Hv. þingmaður reifar þann möguleika að fyrirtækið verði fjárvana og framselji réttindin. Þá verð ég að segja eftirfarandi: Í samningnum kemur alveg skýrt fram að á byggingartímanum er óheimilt að framselja réttindi og skyldur til annarra aðila nema allir aðilar samningsins samþykki, þar með talið ríkið. Hv. þingmaður bendir réttilega á að sú staða kynni þá að koma upp að kröfuhafar mundu taka verkefnið yfir til þess að tryggja efndir gagnvart lánasamningum. Ef sú staða kemur upp er það rétt hjá hv. þingmanni að þeim yrði að heimilt yrði að framselja þessi réttindi en um það framsal yrði að gera sérstakan samning sem ríkið verður að eiga aðild að. Ég tel nú að það sé ákaflega ólíklegt að slíkt framsal yrði gert í óþökk ríkisins. Hv. þingmaður, sem hefur lýst yfir nokkurri pólitískri ást á mér og mínum flokki, verður hugsanlega í næstu ríkisstjórn og það mundi þá upp á hana standa, ef þessi staða kæmi upp, að taka slaginn við bola þann sem hér stendur um þau mál. (Gripið fram í.) Ég hef yfirleitt — þó ekki í þessari umræðu — í þeim viðureignum sem ég hef átt við hv. þingmann í gegnum ævina — þær eru margar og flestar jákvæðar — farið halloka.