136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[17:23]
Horfa

Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það mun ekki standa á mér að taka þann slag með hæstv. ráðherra eftir kosningar að verja hagsmuni Íslendinga gagnvart erlendum auðhringum, það er alveg á tæru.

Staðan er sú að það er ekki aðeins Century Aluminum sem tapaði gríðarlega á síðasta ári, það eru þrengingar í áliðnaðinum um allt í heiminum. Við erum hér með risastór félög. Alcoa tapaði líka gríðarlega á síðasta ári, 500 millj. dollara, þó að það sé ekki jafnmikið og Century Aluminum sem töpuðu 900 milljónum. Það er ekkert launungarmál að innan skamms tíma geta öll álverin á Íslandi verið komin á eina hendi og ég er hér að tala um Rio Tinto.

Við skulum aðeins hugleiða hvað við erum þá búin að setja mikið af okkar eggjum í sömu körfu, í nákvæmlega sömu körfu. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég geld mikinn varhuga við þessu. En ég er til í að taka slaginn með hæstv. ráðherra til að verja hagsmuni Íslands gegn erlendum auðhringum hvenær sem er.