136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Já, herra forseti, þrjú til fjögur þúsund störf í álveri í Helguvík, 1.873 á atvinnuleysiskrá í gær á Suðurnesjum. Ég vil spyrja hv. þm. Grétar Mar Jónsson á móti: Þessi tala, þrjú til fjögur þúsund störf, er hún miðuð við 250 þúsund tonna álver, eins og umhverfismatið gerir ráð fyrir eða er hún miðuð við 360 þús. tonna álver eins og samningurinn gerir ráð fyrir? Eða er þetta kannski miðað við 150 þús. tonna álver eins og loftslagsheimildirnar gera ráð fyrir?

Það er nefnilega ekki á vísan að róa í þessu, hv. þingmaður, og þær tölur sem fleygt hefur verið um atvinnusköpun í þessu verkefni eru bara ekki réttar, þær byggja ekki á raunhæfum forsendum. Það er allt á floti með þetta verkefni. Ég hef bent á það hér að leyfin eru ekki til staðar. Ég hef líka bent á að orkuöflunin er öll í uppnámi. Það er ekki til orka fyrir þessa starfsemi sem lofar þrjú til fjögur þúsund störfum.

Ég hef líka bent á að orkuflutningurinn er í uppnámi. Sveitarstjórnin í Ölfusi vill ekki hleypa línunum í gegn, segir að það verði banabiti í iðnaðarframleiðslu í sveitarfélagi sínu. Ég hef líka bent á að staðan á álmörkuðum er þannig að það er afskaplega lítil von um að þar batni eitthvað á næstu missirum. Verið er að loka álverum alls staðar í heiminum. Ég hef líka bent á að skuldastaða móðurfélagsins, Century Aluminum, er ekki beysin þegar Moody's breytir lánshæfismatinu úr B2 niður í CAA3.

Það er því margt að athuga áður en menn fullyrða að þarna séu þrjú til fjögur þúsund störf. Ég minni á að störfin í álverum eru einhver þau dýrustu sem hægt er að skapa. Það er hægt að skapa miklu fleiri störf fyrir sömu peninga í öðrum iðngreinum.