136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[17:48]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni, ég fagna því mjög að þessi fjárfestingarsamningur er á dagskrá og verður afgreiddur frá þinginu. Ég held að hann skipti töluverðu máli og renni stoðum undir það að verkefnið gangi eftir, enda hefur verið unnið að honum um margra mánaða skeið. Hann var kominn á teikniborðið og tilbúinn í tíð fyrri ríkisstjórnar og iðnaðarráðherra fór með hann inn í ríkisstjórn og Alþingi í febrúar. Formaður iðnaðarnefndar leiddi hann síðan í gegnum sína nefnd. Ég held að við eigum bara að fagna því mjög að þetta verkefni verður vonandi frekar að veruleika eftir að þessi samningur er kominn fram.

Það sem stendur okkur Íslendingum núna næst er að auka framleiðslu í landinu, verðmætasköpun og fjölga verðmætum og góðum störfum. Það skiptir öllu máli og þess vegna eigum við að fagna því að þetta verkefni er komið fram um leið og við eigum að bera virðingu fyrir skoðunum þeirra sem eru því andstæð og vilja nýta orkuna í annað. Það gengur þvert á flokka hvernig fólk vill standa að uppbyggingu í atvinnulífi, hvort menn eru með eða á móti einstökum verksmiðjum eða hvort menn vilja byggja upp öðruvísi iðnað, gagnaver, álþynnuverksmiðjur eða annað. Niðurstaða er samt fengin í þetta mál. Sveitarfélögin suður frá og stjórnmálamenn á Alþingi í miklum meiri hluta eru því fylgjandi að byggt verði álver í Helguvík og það er mikið fagnaðarefni.

Þarna gætu orðið þúsundir starfa strax í haust við uppbygginguna. Það er tæpt ár síðan við fyrrverandi fjármálaráðherra tókum skóflustungu að þessu verkefni. Síðan hefur töluvert mikið verið byggt þarna og milljarðar settir í verkefnið. Vonandi fjölgar þeim mjög. Þess vegna eigum við að fagna því að þetta mikil og breið pólitísk samstaða hafi náðst um málið, bæði á Alþingi og heima í héraði. Á Suðurnesjunum er nokkuð órofa samstaða um þetta verkefni. Þar verður maður ekki var við nokkra einustu merkjanlegu andstöðu við málið, heldur mikla eftirvæntingu eftir því að þetta mikilvæga atvinnuverkefni gangi fram og því vildi ég spyrja hv. þingmann hvort við ættum ekki að fagna því að þetta gangi fram (Forseti hringir.) í staðinn fyrir að gera lítið úr skoðunum þeirra fáu sem eru á móti.