136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[17:55]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nefnilega lykilatriði að um þetta verkefni er mikil samstaða í þinginu, um það er ekki deilt. Það er nákvæmlega það sem kemur fram þegar við horfum til þess hverjir skrifa undir meirihlutaálitið.

Það er heldur ekki um það deilt að ósamstaða er um þetta mál í ríkisstjórninni og hv. þingmaður vék sér fimlega undan því að nefna það í ræðu sinni. Hann talaði bara um að við þyrftum að bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Ég ítreka að ég ber alla virðingu fyrir skoðunum annarra en mér þykir verra að þær séu margar innan sömu ríkisstjórnar þegar um svo merkilegt og mikilvægt verkefni er að ræða.

Hv. þingmaður nefndi einmitt fyrrverandi ríkisstjórn, fráfarandi ríkisstjórn, sem við vorum bæði aðilar að, ég sem þingmaður og þingmaðurinn sem bankamálaráðherra. Það er alveg rétt að þeir flokkar eru mjög ólíkir og um mörg mál vorum við ekki sammála — enda hvernig fór sú ríkisstjórn? Hún fór ekki vel, blessunin, og fór frá völdum einmitt vegna þess að ekki var næg samstaða um grundvallarmál í þeirri ríkisstjórn. Þess vegna segi ég að þegar gerðir eru samningar, ekki síst þegar gerðir eru stjórnarsáttmálar, verða svona hlutir að liggja fyrir. Maður getur borið alla virðingu fyrir andstæðum skoðunum, en þá verður líka að liggja fyrir að þegar menn eru búnir að gera samkomulag um ákveðin atriði í ríkisstjórnarsamstarfi haldi þeir hlutir. Það er nákvæmlega það sem ég vil leyfa mér að halda fram að hafi klikkað í seinustu ríkisstjórn, það var sífellt verið að tala um hluti sem var vitað að ekki væri samkomulag um. Þess vegna velti ég fyrir mér þessum tveimur flokkum í ríkisstjórn. Í framhaldi af kosningunum núna leyfi ég mér að draga í efa að um þessi mál, sem menn hafa andstæðar skoðanir á, verði (Forseti hringir.) endanleg samstaða. Þau verða dregin fram og það verður talað (Forseti hringir.) um þau þrátt fyrir alla stjórnarsáttmála. Ég leyfi mér að halda þessu fram.