136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[18:22]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég minntist á að atvinnuleysi á Suðurnesjum væri mikið. Ég hélt að það væri 15–16% en eftir því sem best er vitað er það orðið 17–18%. Það þrengir að hjá mörgum og þess vegna er þessi álversuppbygging mjög af því góða og þetta er það sem við þurfum að gera.

Ég held að á morgun verði flaggað á flestum heimilum á Suðurnesjum og þetta verður hátíðisdagur ef við berum gæfu til þess á eftir að samþykkja frumvarpið þegar það fer í atkvæðagreiðslu. Það verða margir á morgun bjartsýnni á Suðurnesjum en þeir hafa verið. Við getum eflaust fagnað vel og innilega þegar búið verður að greiða atkvæði um málið sem ég trúi ekki öðru en að verði samþykkt. Ég held ekki að nein teikn séu á lofti um annað.

Þegar búið verður að byggja þetta upp í framtíðinni, 3.000–4.000 manns verða búin að vera með vinnu í 2–3 ár og þegar þetta verður komið í gang af fullum krafti, verða þúsund manns þarna meira eða minna í fastri vinnu. Væntanlega verða orkufyrirtækin sem selja orku til þessa álvers, bæði Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur, sterkari en áður. Þetta mun skapa þeim meiri möguleika til að halda áfram að afla orku á Suðurnesjum, Hellisheiðinni og víðar. Vonandi tekst Landsvirkjun líka vel til við að afla meiri orku sem við getum notað til að skapa atvinnu og afla gjaldeyristekna fyrir þjóðina. Á þessu lifir fólkið, að hafa atvinnu, og þjóðin lifir á því að geta selt einhverjar afurðir. Svo sannarlega vonast ég til þess að á morgun geti menn flaggað á Suðurnesjum.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til bæði í landbúnaði og sjávarútvegi að fjölga störfum. Við höfum lagt til að meira verði veitt af fiski sem skapar mörg störf. Við höfum lagt til að farið verði í ákveðnar aðgerðir í landbúnaði til að skapa fleiri störf og spara gjaldeyri. Síðast en ekki síst höfum við lagt til að byggð verði tvö álver, annað í Helguvík og hitt á Bakka. Ef maður leggur til þessi störf sem við í Frjálslynda flokknum erum að tala um — við höfum lagt það í vana okkar í vetur að tala í lausnum — ef 3.000–4.000 manns fá vinnu við álverið í Helguvík og annað eins á Bakka erum við að tala um mikla atvinnuuppbyggingu í þessum tveimur verkefnum. Auðvitað snýst þetta ekki bara álverin heldur líka fyrirtækin sem vinna að orkuöflun, framleiða orku og byggja upp orkuverin sjálf sem verið er að tala um. Þá erum við að tala um 7.000–8.000 störf. Við giskum á 5.000 störf í sjávarútvegi og jafnvel 1.000 í landbúnaði. Við erum að tala í lausnum. Það er gott að fyrsta skrefið í þessum lausnum sé að við samþykkjum núna að hefja að fullu framkvæmdir í Helguvík.