136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[18:43]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Álver á Reyðarfirði hefur fjölgað störfum en ekki fækkað. Hvernig væri á Reyðarfirði í dag ef 800 manns hefði ekki atvinnu af álverinu á því svæði? Þeir væru sjálfsagt flúnir til Reykjavíkur eða farnir til útlanda eða eitthvert ef þeir hefðu ekki atvinnu í álverinu á Reyðarfirði.

Það eru rök sem ekki er hægt að trúa eða hlusta á. Við höfum gott dæmi í Hafnarfirði þar sem álverið var byggt fyrir 1970 og hefur verið Hafnfirðingum bara til góðs allan þann tíma sem það hefur verið starfrækt þar. Er löngu búið að borga upp Búrfellsvirkjun með því álveri.

Vinstri grænir tala um að grasrótin eigi ekki möguleika en nú eru þeir búnir að vera í ríkisstjórn og höfðu tækifæri til að breyta ýmsu bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Það hefur staðið á því hjá Vinstri grænum að gera það og svo tala þeir bara um að það þurfi að gera eitthvað annað.

Það er alltaf eitthvað annað. Það vantar allar raunhæfar tillögur. Hvernig á að fá peninga í eitthvað annað og hvað á að gera til þess að hægt sé að koma þessu í gang?

Verið er að tala um mismunun en hvað eru niðurgreiðslur í landbúnaði? Hvað er ríkisstyrkurinn í sjávarútvegi? Við erum alltaf að mismuna atvinnugreinum. Við gerum það í landbúnaði til þess að lækka neytendaverð og halda bændastéttinni gangandi. Við erum með ríkisstyrki í sjávarútvegi — gjafakvótakerfið er auðvitað ekkert annað en ríkisstyrkur. En Vinstri grænir hafa ekki lagt fram neinar hugmyndir um að breyta því og þeir halda meira að segja áfram að brjóta mannréttindi á (Forseti hringir.) fólki í sjávarútvegi.