136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[18:45]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég bendi hv. þm. Grétari Mar Jónssyni á að hverfa austur á Egilsstaði og í Fjarðabyggð og kynna sér af eigin raun hver staðan er þar, hver nútíðin er þar sem átti að vera framtíð fyrir sjö til níu árum. Ég skora á hv. þingmann að kynna sér það. Væntanlega hefur hann hlustað á kosningaþátt úr Norðausturkjördæmi þar sem voru viðtöl við íbúa þaðan.

Staðreyndin er sú að þar var sagt að skapa ætti 3.000–5.000 störf, það hefur ekki orðið. Og það er merkilegt að skoða hvað annar atvinnurekstur sem var þar hefðbundinn á svæðinu hefur hopað. Það er líka mikið atvinnuleysi þar en ekki á fjörðunum sem eru norðar eða sunnar, það er bara staðreynd. Ruðningsáhrifin hafa verið slík. (Gripið fram í.) Eitthvað annað? Ég fullyrði það af reynslu úr mínu kjördæmi, hv. þingmaður, að um leið og við náum vöxtunum verulega niður munu hundruð starfa og atvinnuverkefni losna þar úr læðingi. Ég nefni bleikju, ég nefni garðyrkjuna, ég nefni bændur, ég nefni kornrækt. Það er mjög margt en við eigum ekki að vera það stalínísk að koma ofan frá heldur leyfa fólkinu í landinu að búa þetta til og hafa rekstrarumhverfi til þess, búa til eðlilegt rekstrarumhverfi sem blóm geta sprottið upp úr, búa til jarðveg og hlúa að því sem aðrir eru að gera. Við eigum ekki að koma með hugmyndir ofan frá.

Ég vil líka nefna það, og það veit hv. þm. Grétar Mar Jónsson, að við flytjum út 50–60 þús. tonn á ári af óunnum fiski. Ég veit ekki betur en að tillaga mín þess efnis væri að til bráðabirgða yrði það ekki gert á meðan atvinnuástandið væri sem verst, þá mundum við stöðva það. Ég vildi leysa það í samráði. Hv. þingmaður hefur talað um að við gætum reist tíu frystihús, hann veit betur en ég hversu mörg störf eru þar.