136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[18:47]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru fimm millj. kr. árslaun hjá verkamanni sem vinnur í álveri. Það eru á bilinu 30–40% hærri laun við að vinna í álveri en í annarri verkamannavinnu. Ég minni líka á að 25–30% af störfum í álverum í dag eru orðin kvennastörf þannig að álver eru bara ágætur vinnustaður miðað við margt annað. Uppgangur í Bláa lóninu, í sprotafyrirtækjum og ýmsu öðru — það þarf ekkert að stoppa þó að það sé byggt álver. Að lækka raforkuverð til garðyrkjubænda er óháð álverum. (Gripið fram í: Nú? Hver á þá að borga niðurgreiðslurnar?) Það þarf ekkert að greiða það niður, það er hægt að taka það með ýmsum kostnaði.

Til að byggja upp nýtt Ísland verður að nýta alla möguleika til þess að skapa atvinnu og gjaldeyri, það er það sem við þurfum að gera á Íslandi. Við þurfum að tala í lausnum eins og við í Frjálslynda flokknum, eins og við höfum verið að gera í gegnum tíðina. (Gripið fram í.) Við tölum í lausnum, hvernig er hægt að afla meiri gjaldeyris og skapa fleiri störf eins og ég kom inn á áðan. Ef vilji væri fyrir hendi væri hægt strax á þessu ári að auka störf um 12–13 þúsund. En það vantar viljann og líka nýja hugsun í Vinstri græna í sambandi við grunnatvinnuvegina, bæði landbúnað og sjávarútveg. Þess vegna er nauðsynlegt að þau í Vinstri grænum sem tala á móti álverum, á móti stóriðju og bera fyrir sig að auðhringir megi ekki koma inn í landið með peninga því að það sé svo hættulegt — það er það sem er að og (Forseti hringir.) þar þurfa Vinstri grænir að taka sig á.