136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[18:51]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég stenst ekki mátið að veita andsvar við ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar, sem var alveg makalaus ræða og rökstuðningur hans er alveg með ólíkindum.

Mig langar aðeins til að fara inn á einn þátt — það voru margir þættir sem hv. þingmaður kom inn á — en það eru gjaldskrármálin. Hv. þingmaður fór yfir að það væri líklega um tíu sinnum lægra verð sem álverin greiða fyrir raforkuna. Það er með ólíkindum hvernig fulltrúar Vinstri grænna koma að þessari umræðu. Við vitum það í fyrsta lagi að álver nota raforku að fullu og öllu í 24 stundir á sólarhring. Þau nota orkuna í 365 daga á ári, alveg fullt afl. Gerðir eru langtímasamningar upp á tugi ára um kaupin. Flutningurinn, sem er kannski hvað stærsti liðurinn í orkuverði heimilanna, er miklum mun ódýrari þar sem orkan er flutt í miklu hærri spennu en gert er í dreifikerfi til almennings og fyrirtækja almennt, þannig að flutningurinn er miklu ódýrari til svona stórnotenda. Orkutapið er miklu minna þegar er verið að flytja orkuna með þessum hætti.

Þess vegna er ótrúlegt að hlusta á þennan rökstuðning og málflutning, að ekki skuli vera tekið tillit til kostnaðarins sem liggur til grundvallar því að skaffa álveri orku í 20, 30 ára samningi og með þeim hætti sem ég hef farið yfir hér. Hvernig í ósköpunum eru útreikningarnir og aðferðafræðin (Forseti hringir.) hjá Vinstri grænum? Ég vildi gjarnan fá að heyra um það.