136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[18:53]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hingað flytja álbræðslurnar hráefni sitt um 6 þús., jafnvel 10 þús. km leið yfir sjó frá löndum þar sem er orka, jafnvel græn orka fallvatna. Maður spyr sig: Af hverju leggja þau á sig að flytja hráefnið yfir hálfan hnöttinn? Af hverju skyldi það nú vera? Jú, það er vegna þess að við seljum orkuna til þeirra á undirverði, á verði sem er það lægsta sem þekkist í heiminum. Við getum selt þessa orku til vistvænnar framleiðslu, jafnvel stórnotenda, fyrir hærra verð. Garðyrkjubændur eru stórnotendur, allir garðyrkjubændur landsins samanlagt eru stórnotendur. Ég hef ekki séð tölur fyrir því að flutningskerfið til þeirra sé ýkja mikið dýrara eða öðruvísi en til álbræðslna sem þurfa sérlínur.

Hér eigum við línur allt í kringum landið, hv. þingmaður, og frá þeim stofnlínum eru lagðar línur stuttan veg til flestra garðyrkjubænda. Af hverju ætti flutningskostnaður þá að vera svo miklu minni til virkjana — nema að það er auðvitað meiri orka flutt um strengina? Það réttlætir ekki að við bjóðum orkuna á því lága verði að það bitni á almenningi og öðrum atvinnurekstri í landinu. Sú var tíðin að inni í raforkulögum stóð að það mætti ekki, sú var tíðin að sagt var að Búrfellsvirkjun, þegar hún væri búin að borga sig upp, mundi lækka raforkuverð heimilanna. Það hefur ekki gerst, því miður.