136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[18:55]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Í því andsvari sem ég fékk frá hv. þm. Atla Gíslasyni opinberaði hann algjörlega þekkingarleysi sitt á orkuflutningum og orkusölusamningum til stóriðju og til annarra notenda. Á meðan slík vitneskja er ekki í forðabúri Vinstri grænna er ekki nema von að þeir hafi málflutning sinn sem raun ber vitni og ég get engu þar um breytt. Þeir verða hreinlega að fá kynningu frá þeim sem selja raforku og standa að grunnkostnaði við flutninginn á orkunni.

Garðyrkjan hefur komið svolítið til tals og ég vil þeirri atvinnugrein allt hið besta í orkumálum. Það er rétt eins og hv. þm. Atli Gíslason sagði, raforkan á síðasta tímabili hefur hækkað gríðarlega. Ég stóð að því ásamt fleirum að gera aðlögunarsamning fyrir þá atvinnugrein sem miðaði að því að þeir fengju orkuna á sambærilegu verði við það sem var í nágrannalöndunum á þeim tíma, frá Noregi og Kanada. Nú stendur þannig á spori að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra endurnýjaði samninginn við garðyrkjubændur um orkuverð og ég veit það fyrir víst að þeir geta á engan hátt fellt sig við þær hugmyndir sem sá ráðherra, sem kemur frá Vinstri grænum, leggur upp með.

Nú skora ég á hv. þm. Atla Gíslason að beita sér fyrir því að það verði meira en orðin tóm varðandi garðyrkjuna fyrir kosningar og þau málefni sem Vinstri grænir standa að. Standið þið nú að því að koma til móts við þá atvinnugrein sem þið hafið möguleika og tækifæri til þar sem fjármálaráðherrann og landbúnaðarráðherrann kemur frá ykkur og er með samning sem er óundirritaður (Forseti hringir.) og upp í loft í dag.