136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[18:58]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Hv. þm. Kjartan Ólafsson segir mig hafa opinberað vanþekkingu mína. Það er líklega alveg hárrétt hjá honum. Það er vegna þess að orkuverðið er hernaðarleyndarmál, það er ekki hægt að nálgast þetta af fullri þekkingu á meðan það liggur ekki fyrir. (Gripið fram í: Til garðyrkjubænda?) Hvernig stendur á því að við getum ekki fundið og reiknað út arðsemisútreikninga? Það gæti töluglöggur maður eins og t.d. hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gert ef hann fengi þetta í hendurnar. (Gripið fram í.)

Ég ætla síðan að segja við hv. þm. Kjartan Ólafsson: Fyrri ríkisstjórn fór í það ólánsverk að skera niður flatt á hvað sem fyrir varð, heilbrigðisþjónustuna, bændur og alla sem fyrir urðu í staðinn fyrir að forgangsraða. Það var arfur sem fjármálaráðherra fékk eftir fjármálaríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins. Það hefur tekist með stífri vinnu að ná samningum út af búvörusamningunum. (Gripið fram í: Nei. …) — Niðurskurður sem lögmenn bænda töldu vera lögbrot og ég er sammála þeim. Unnið hefur verið að því hörðum höndum að leiðrétta þessi lögbrot fyrrverandi ríkisstjórnar gagnvart garðyrkjubændum. Það mál er því miður ekki í höfn en að því er unnið. Það er öðruvísi staðið að verki en hjá fyrri ríkisstjórn sem skar flatt á allt sem fyrir varð. Breytti þar engu þótt það væru aldraðir og öryrkjar, heilbrigðisþjónusta eða börn, engin minnsta félagslega hugsun var fólgin í því. (Gripið fram í.)