136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[19:46]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að byrja ræðu mína á því að fagna eins og þeir þingmenn sem hafa hér talað og styðja það frumvarp sem hér liggur fyrir. Auðvitað eigum við að fagna þegar við sjáum fram á að það er að nást endir á mál sem hefur verið lengi í vinnslu og menn hafa trú á því að þarna sé verið að vinna verkefni sem muni skapa mikla atvinnu. Það er einmitt það sem samfélagið þarf í dag.

Ég verð hins vegar, frú forseti, að viðurkenna að eftir að hafa hlýtt á ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar er ég uggandi um málið eins og hann fór yfir þetta frumvarp og eins og hann horfir á málið frá sínum bæjardyrum. Ég verð að viðurkenna að ég get ekki að fullu og öllu treyst Samfylkingunni til að fylgja þessu máli til enda eins og þarf að gera, því miður.

Auðvitað erum við sammála um að nýta náttúruauðlindir okkar, eins og vatnsafl og gufu til atvinnuuppbyggingar, til gjaldeyrissköpunar. Það er hlutur sem við þurfum að gera og vinna að og það hefur verið gert um langan tíma, og ég vil taka undir öll þau orð sem hafa lotið að þeim þætti málsins. Ég vil fara inn á tvo þætti málsins sem er annars vegar álit meiri hluta umhverfisnefndar, þar sem ég á sæti, og fara örlítið yfir það álit og hvað þar kemur fram, og svo vil ég aðeins fara yfir þann þátt sem mér finnst að hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafi ekki greint frá og farið yfir og það er hvernig á að skaffa orku í það álver sem hér um ræðir.

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst fara yfir umsögn umhverfisnefndar sem hún gaf iðnaðarnefnd en þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrir liggur að Skipulagsstofnun hefur skilað áliti um mat á umhverfisáhrifum og er helsta niðurstaða stofnunarinnar sú að fyrirhugað álver í Helguvík muni ekki valda neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi eða samfélag.“

Þetta er auðvitað afar mikilvægt í þeirri miklu umræðu sem hér hefur farið fram um umhverfisþátt þessa máls.

„Stofnunin bendir þó réttilega á að matið snýr eingöngu að umhverfisáhrifum af fyrirhuguðu álveri en ekki tengdum framkvæmdum. Þá eigi þeir virkjunarkostir sem orkuveitendur álversins hyggjast nýta eftir að fara í umhverfismat.“

Síðan segir áfram um mengunarþáttinn, með leyfi forseta:

„Niðurstaða líkanreikninga er þó að styrkur efnanna í andrúmslofti“, þ.e. brennisteinstvíoxíði, „vegna útblásturs frá álverinu verði innan umhverfismarka og viðmiðana sem sett hafa verið á Íslandi og í Evrópusambandinu.“

Þetta er afskaplega mikilvægt að við höfum á hreinu. Svo segir áfram:

„Nánar er kveðið á um skyldur rekstraraðila til umhverfisvöktunar í 5. kafla starfsleyfis sem Umhverfisstofnun hefur gefið út.

Í umhverfismati Skipulagsstofnunar kemur skýrt fram að álver í Helguvík muni hafa verulega neikvæð áhrif vegna losunar gróðurhúsalofttegunda enda reiknast losunin um 13% af heildarlosun Íslendinga viðmiðunarár Kyoto-bókunarinnar 1990. Álverið hefur nú fengið úthlutað 539 þúsund losunarheimildum frá úthlutunarnefnd losunarheimilda sem jafngildir 150 þúsund tonnum áls á ári.“

Svo mörg voru þau orð í þessum kafla og auðvitað þarf engan að undra það að gróðurhúsalofttegundir aukast við þessa framkvæmd, það vita allir sem þekkja til.

Frú forseti. Ég ætla aðeins að fara frekar í það sem meiri hluti umhverfisnefndar segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir samningi um álver sem anni framleiðslu á allt að 360 þúsund tonnum á ári en einungis hefur verið úthlutað losunarheimildum fyrir allt að 150 þúsund tonn á ári. Þá er starfsleyfi Umhverfisstofnunar vegna álversins gefið út vegna reksturs álvers í Helguvík með allt að 250 þúsund tonna ársframleiðslugetu á áli og er gildistími þess til ársloka 2024. Bæði losunarheimildir og starfsleyfi gera því ráð fyrir minni ársframleiðslu en áætlaðri framleiðslugetu álversins samkvæmt þeim samningi sem í frumvarpinu er lagt til að heimilað verði að gera. Umhverfismat Skipulagsstofnunar byggist jafnframt á álveri með sömu framleiðslugetu og getið er í starfsleyfi, þ.e. 110 þúsund tonnum minni en framleiðslugetu samkvæmt samningi. Meiri hlutinn vekur athygli á þessu misræmi.“

Svo mörg voru þau orð og undir þetta ritar meiri hluti hinnar virðulega nefndar umhverfisnefndar og samþykkir þar með þessa framkvæmd.

Síðan langar mig aðeins að vitna í nefndarálit frá minni hluta iðnaðarnefndar þar sem undir skrifar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir. Hv. þingmaður víkur að því og segir í texta þar sem hún vitnar til blaðaviðtals við sveitarstjóra Ölfuss að það séu möguleikar á að flytja alla raforku Þjórsárvirkjana á Suðurnes. Mér finnst eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sé með þeim orðum að segja að það eigi að virkja Neðri-Þjórsá. Ég get auðvitað fagnað því að Vinstri grænir skuli vera með það í texta hér og vitna til þess með þeim hætti sem hér er gert, að neðri hluti Þjórsár verði virkjaður, en um leið eru þeir að reyna að koma upp óeiningu milli sveitarfélaganna á Suðurlandi og á Suðurnesjum, í sama texta og sama kafla þar sem sagt er að sveitarstjóri Ölfuss muni ekki heimila línulögn. Þarna finnst mér, frú forseti, að við þurfum að staldra aðeins við og fara yfir málið.

Það er einfaldlega ekki nærri búið að virkja alla þá orku sem mögulegt er að virkja á Suðurnesjum. Það er einungis farið að bora tilraunaholur í Krýsuvík þannig að af því svæði má kannski fá um 300 megavött. Á Reykjanesi eru jafnframt fleiri svæði sem hægt er að virkja til þess að fullnægja þeirri orkuþörf sem álverið í Helguvík hefur samkvæmt þeim leyfum sem ég hef farið hér yfir. Það er eðlilegt og sjálfsagt að heimaaðilar á Suðurlandi, eins og þeir aðilar sem eru í forsvari fyrir sveitarfélagið Ölfus, fyrir sveitarfélögin við Þjórsá, Tungnaársvæðið, Gnúpverja- og Skeiðahreppur, Ásahreppur, Rangárþing ytra, það er eðlilegt að þeir aðilar og forsvarsaðilar þeirra sveitarfélaga vilji atvinnuuppbyggingu tengda þeirri orku sem framleidd er á því svæði, það er bara ofur eðlilegt. Með sama hætti hafa Skagfirðingar talað um þá orkunotkun sem hugsanlega kæmi til í Skagafirði við virkjanir þeirra fljóta sem þar eru. Ég held að við eigum að ganga þannig um þetta mál að við séum ekkert að ljúka þeim virkjunarframkvæmdum og þeim virkjunarmöguleikum í þessu landi með því að virkja fyrir álverið í Helguvík, það er bara einfaldlega ekki svo.

Mér fannst hins vegar dálítið sérkennilegt að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sem er hér einhvers staðar í hliðarherbergjum, viki ekki einu orði að því hvernig ætti að afla orkunnar. Sá hv. þingmaður hefur verið á móti því alla tíð að það verði virkjað í neðri hluta Þjórsár. Mér finnst skorta á að þingmenn Samfylkingarinnar hafi talað skýrt um það hvernig og hvar eigi að virkja og hvernig þeim málum eigi að vera háttað. Hv. þingmaður, sem er þingmaður Suðurkjördæmis, situr ekki í salnum, hann fylgist ekki með umræðunni og fer í felur til þess að þurfa ekki að tala um þessi mál, atvinnuuppbyggingu í Suðurkjördæmi og þá orku sem þar er óbeisluð.

Ég veit að hæstv. iðnaðarráðherra hefur skrifað grein um það og hefur skilning á því, sá ágæti ráðherra, að heimaaðilar vilji nýta orkuna í héraði. Ég treysti því að sá ráðherra, á meðan hann fær að vera í stól iðnaðarráðherra, muni styðja það áfram eins og hann hefur gert hingað til að aðilar geti nýtt þá orku sem beisluð er í héruðunum sem næst virkjunarstað. Það er það sem ég vil koma skýrlega á framfæri, frú forseti, að það er hlutur sem við eigum að gera enda er það hagkvæmast að nýta orkuna sem næst upprunanum, það vitum við. Þá verður minnst umhverfismengun, ef svo má að orði komast, með línulagnir, landsvæði sem fara undir háspennulínur, við minnkum það eins og hægt er með því að vera með notkunina sem næst upprunanum. Það er hlutur sem er líka hagkvæmnismál vegna þess að það eru töp, það eru þrátt fyrir allt gríðarlega mikil töp við flutninga á orku og það er það sem við þurfum að minnka sem mest og láta sem flestar byggðir landsins fá að njóta þeirrar orku sem er aflað í heimabyggð og má þar nefna að á Suðurlandi er eitt stærsta orkubú landsins og mest orkan framleidd en er nánast öll flutt úr héraði. Það er það sem ég vil koma skýrlega á framfæri að þeir aðilar fylgist grannt með hvernig þessum málum vindur fram.

Ég verð að endurtaka að ég hef áhyggjur af því hvernig hv. þm. Mörður Árnason talaði hér áðan.