136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[20:01]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ver alla mína félaga, ekki bara hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson. Ég hef t.d. varið fullkomlega málfrelsi hv. þm. Marðar Árnasonar sem hefur allt aðra skoðun á þessu máli en ég. Ég tel að hann hafi fullan rétt til að koma hingað eins og hann hefur gert og flutt mál sitt með sterkum rökum, ég er þeim bara ósammála.

Hv. þingmaður hefur sérstakar gáfur til að túlka, er það vel. Ég sem iðnaðarráðherra hef margsinnis sagt að það kunni hugsanlega að koma til minna kasta að skera úr um deilumál varðandi hvort neðri Þjórsá verði virkjuð. Til að ég geti sinnt þeirri skyldu sem þá mundi á mér hvíla, m.a. rannsóknarskyldunni sem er gríðarlega rík í stjórnsýslulögum, hef ég gætt þess mjög vendilega að ég hef aldrei látið uppi hver afstaða mín er til þess hvort virkjað verði í neðri Þjórsá. Ástæðan er einfaldlega sú að sú ákvörðun, ef það verður ég sem tek hana, verður ekki tekin fyrr en búið er að uppfylla rannsóknarskylduna og skoða það mál til hlítar. Það tilefni hefur ekki gefist vegna þess að Landsvirkjun hefur aldrei komið með bón til mín um að neðri Þjórsá verði virkjuð, það verður að vera algjörlega skýrt.

Ég hef, eins og meiri hluti þeirra sem styðja minn flokk, lýst yfir að við þessar aðstæður styðji ég Helguvíkurframkvæmdina. Ég hef gert það vegna þess að með tilliti til atvinnuleysisstigs núna er ljóst að sú framkvæmd mun skapa fjölda starfa á þeim tíma þegar efnahagslægðin er dýpst og þegar atvinnuleysið rís hæst. Það skiptir máli fyrir mig og ég geri mér alveg grein fyrir því að á þessu eru skiptar skoðanir og ég hef sagt hér í umræðunum, m.a. í tilefni af ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, að ég ber fulla virðingu fyrir hennar rökum og rökum hv. þm. Marðar Árnasonar. Ég hef teflt fram mínum mótrökum og vona að menn virði þau líka. En ég vil að (Forseti hringir.) afstaða mín til neðri Þjórsár og tengsla hennar við þessa framkvæmd sé algjörlega skýrt.