136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[20:04]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi fá einmitt að koma hér upp og vera, að ég held, síðasti ræðumaður á þessu þingi. Það er sérstaklega ánægjulegt að við séum einmitt að fjalla um þetta mál, fjárfestingarsamninginn varðandi Helguvík. Ástæðan fyrir því að ég gleðst svona yfir þessu eru þær upplýsingar sem koma fram um fjölda starfa sem skapast við þetta verkefni. Talað er um að áætluð ársverk við byggingu álversins verði um 4.300 og fjöldi starfa muni ná hámarki á árinu 2011 og verði þá 1.200–1.500 auk þess sem áætlað er að í kringum framkvæmdina verði afleidd störf um 8.000–9.000 ársverk í heildina.

Í tilefni þess vildi ég gjarnan lesa, (Iðnrh.: Má ekki nota hjálpar…?) með leyfi forseta (Iðnrh.: Og iðnaðarráðherra.) — og iðnaðarráðherra, leiðara úr dagblaðinu DV. Þar segir, með leyfi forseta:

„Andri Snær Magnason rithöfundur dregur upp hjákátlega mynd af hjákátlegu landsbyggðarfólki í heimildarmynd sinni Draumalandinu sem nú er sýnd í kvikmyndahúsum. Andri birtir myndskeið af fögnuði Húsvíkinga og Reyðfirðinga yfir álversframkvæmdum, sem virðist fádæma heimskulegur í ljósi drungalegs boðskapar myndarinnar.

Sú skoðun að Íslendingar ættu að beita sér gegn verksmiðjum og „bara gera eitthvað annað“ skaut rótum í þjóðarsálinni á þeim tíma sem uppgangur í þjóðfélaginu var drifinn áfram af stórfelldum lántökum. Þjóðfélagið virtist vera ósigrandi. Allt gekk upp þótt lítið væri reynt. Þegar allt kemur til alls var það sá hæfileiki Íslendinga að taka lán, taka áhættu, stunda spillingu og veðsetja verðmætin sem olli góðærinu síðustu ár. Út frá þessari forsendu, að allt kæmi af sjálfu sér, spratt hugmyndin um að Íslendingar gætu auðveldlega sleppt því að framleiða verðmæti, án sérstakra afleiðinga. Öfgar afturhaldssinna spretta úr hinu firrta samfélagi, rétt eins og frjálshyggjustefna Sjálfstæðisflokksins á sama tíma.

Margt fólk úti á landi dreymir um að starfa við eitthvað annað en sjávarútveg eða sauðfjárrækt en verður að horfa upp á drauma sína dofna eða flytja burt. Ólíkt því sem margir náttúruverndarsinnar halda fram, gat fólk á Reyðarfirði ekki ákveðið að vinna bara við eitthvað annað. Í frjálsu hagkerfi verður einhver að vilja borga fyrir vinnuna. Blind trú á því að álver leysi allt er skaðleg en trúin á að sprotar spretti sjálfkrafa um víðan völl óháð markaðslögmálum er engu betri.

Útsýnið frá Austurvelli er mjög takmarkað. Það sýnir ekki fábreytileikann í atvinnumálum margs landsbyggðarfólks. Andri Snær hæðist að fögnuði fólksins sem sá drauma sína rætast um að brjótast út úr einhæfni fiskvinnslu. Skilaboð hans til landsbyggðarfólksins eru í grófum dráttum: Þið getið bara gert eitthvað annað. Líkt og fólkið hafi ekki reynt það sem minnsti grundvöllur var fyrir. Viðhorfið gagnvart fólkinu minnir um margt á meint viðbrögð Frakkadrottningarinnar Marie Antoinette við bón múgsins um brauð: „Geta þau ekki bara borðað kökur?“ Öfgafullir náttúruverndarsinnar og frjálshyggjumenn byggja kröfur sínar á þetta reddast-hagfræði.“

Nýtt Ísland verður að hreinsa sig af þessu. Því tel ég mjög við hæfi þegar við förum í kosningar, þar sem við erum að fara að velja þá sem munu stjórna landinu og byggja upp hið nýja Ísland, að við ljúkum þinginu á þessu máli þar sem við ætlum að skapa raunveruleg störf, störf sem munu byggja á raunverulegri framleiðslu á raunverulegum verðmætum.