136. löggjafarþing — 135. fundur,  17. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[20:18]
Horfa

Frsm. heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til laga um sjúkraskrár. Nefndin ræddi 15. gr. frumvarpsins í tilefni af ábendingum sem fram komu við 2. umr. frumvarpsins og fékk á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur frá heilbrigðisráðuneyti og Kristján Oddsson frá landlæknisembættinu.

Við umræður í nefndinni kom fram að aðgangur að sjúkraskrá látins einstaklings hafi verið heimilaður með stoð í 12. gr. laga um réttindi sjúklinga þar sem fjallað er um þagnarskyldu og heimild til upplýsingagjafar eftir lát sjúklings. Nefndin telur að 15. gr. frumvarpsins, eins og hún lagði til að henni yrði breytt við 2. umr., sé ekki nægilega skýr og leggur til að þar komi fram að aðgangur að sjúkraskrá látins einstaklings sé heimill nánum aðstandendum með þeim skilyrðum og takmörkunum sem þar greinir.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við 15. gr. Greinin orðist svo: Mæli ríkar ástæður með því er umsjónaraðila sjúkraskrár heimilt að veita nánum aðstandanda látins einstaklings, svo sem maka, foreldri eða afkomanda, aðgang að sjúkraskrá hins látna með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum hlutaðeigandi. Telji umsjónaraðili sjúkraskrár vafa leika á réttmæti þess að veita slíkan aðgang skal hann án tafar framsenda landlækni afrit sjúkraskrárinnar til ákvörðunar um hvort aðgangur að sjúkraskránni skuli veittur. Landlæknir skal afgreiða erindið innan átta vikna. Ákvörðun landlæknis um aðgang að sjúkraskrá hins látna er kæranleg til ráðherra. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum.

Mörður Árnason, Ellert B. Schram, Guðlaugur Þór Þórðarson og Kristinn H. Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir framhaldsnefndarálitið rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þm. Ásta Möller, Álfheiður Ingadóttir, Eygló Harðardóttir og Dögg Pálsdóttir.