136. löggjafarþing — 135. fundur,  17. apr. 2009.

almenn hegningarlög.

342. mál
[20:23]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er afar gleðilegt að við erum að ganga til atkvæða um svokallað vændismál. Héðan í frá verður refsivert að kaupa vændi og þeir sem gera það skulu borga sekt eða fara í fangelsi í allt að eitt ár. Ef um barn undir 18 ára aldri er að ræða getur fangelsisvistin varað allt að tveimur árum.

Ég vil nefna að Landssamband framsóknarkvenna var meðal þeirra 14 kvennasamtaka sem ályktuðu sérstaklega um þetta mál árið 2003. Ég vil líka nefna að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson og fyrrverandi þingmaður, Jónína Bjartmarz, voru á þessari skoðun þegar málið var skoðað í nefnd. Þrír hv. þingmenn frá Framsóknarflokknum eru á þessu máli, sú sem hér stendur og einnig hv. þm. Eygló Harðardóttir og Helga Sigrún Harðardóttir.

Þó að ég haldi þessu til haga vil ég sérstaklega taka fram að hæstv. umhverfisráðherra Kolbrún Halldórsdóttir hefur barist fyrir þessu máli (Forseti hringir.) í öll þessi ár og það er sómi að því að við göngum núna til atkvæða um það. Ég þakka henni sérstaklega (Forseti hringir.) fyrir ötula baráttu og það hefur verið ánægjulegt að geta stutt hana.