136. löggjafarþing — 135. fundur,  17. apr. 2009.

skaðabótalög.

438. mál
[20:28]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við afgreiðum hér mikið réttlætismál, réttarbót fyrir þann hóp manna sem er einna verst settur í okkar samfélagi, það fólk sem hefur misst heilsuna og misst vinnugetu í slysum og fólk sem hefur misst maka sinn í slysum. Það er mikilvægt að nú eru leiðrétt þau mistök sem voru gerð á sínum tíma við setningu skaðabótalaganna 1999, fyrir 10 árum, sem urðu til þess að af rétt dæmdum bótum fyrir slys eru dregnar allar bætur almannatrygginga og greiðslur úr lífeyrissjóði fyrir lífstíð. Þetta er mikilvæg réttarbót fyrir þennan hóp manna. Ég fagna þessu sérstaklega og því frumkvæði og þeirri þrautseigju þeirra lögmanna sem á undanförnum 10 árum hafa hvatt þingmenn, sérstaklega hv. alþingismenn í allsherjarnefnd, til að breyta þessum lögum.