136. löggjafarþing — 135. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[20:34]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við framsóknarmenn styðjum heils hugar heimild til samninga um álver í Helguvík. Við teljum þau álver sem nú eru rekin í landinu, í Straumsvík, á Grundartanga og á Reyðarfirði, mjög mikilvæg, þau skapa fjölmörg störf og skapa okkur miklar gjaldeyristekjur. Við styðjum því þau verkefni sem hefur verið mest rætt um í þessu sambandi, þ.e. bæði Helguvík og Bakka á Húsavík. Það er mjög mikil þörf fyrir ný störf inn í landið núna og auknar gjaldeyristekjur, hér eigum við mjög mikla græna orku og það er eðlilegt að nýta hana.

Það vekur talsverða furðu að Vinstri grænir og líka þingmaður Samfylkingarinnar (Gripið fram í: Varaþingmaður.) skuli ekki geta stutt þetta mál, já, varaþingmaður, og svo að fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra og núverandi alþingismaður, Þórunn Sveinbjarnardóttir, getur ekki stutt það. (Forseti hringir.) Þetta vekur mikla furðu af því að það er (Forseti hringir.) þörf á nýjum störfum og það er þörf á gjaldeyristekjum inn í landið.