137. löggjafarþing — 2. fundur,  18. maí 2009.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[19:52]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Við Íslendingar viljum og eigum að vera stolt af landinu okkar, náttúru þess og menningu og þeim kostum sem búa í landi og þjóð. Þessar sterku kenndir gera okkur að þjóð og í þær sækjum við styrk okkar, kjark og þor og síðast en ekki síst ríka samkennd.

Við komum hér saman á Alþingi í kjölfar sögulegra kosninga og vetrar sem hefur að ýmsu leyti verið einstakur í þjóðarsögunni, vetrar sem hefur verið þungur í skauti og skilur eftir sig sár og úrlausnarefni sem eru viðameiri en nokkur stjórnvöld hafa áður staðið frammi fyrir, verkefni sem bíða nú sameiginlegrar úrlausnar ríkisstjórnar, Alþingis og þjóðarinnar allrar.

Fyrir um 200 dögum féll íslenska fjármálakerfið á nokkrum dögum og á augabragði breyttist allt. Afleiðingar þessa hafa verið að koma í ljós ein af annarri og allir Íslendingar hafa fundið fyrir högginu. Atvinnuleysi þúsunda manna, gjaldþrot fjölda fyrirtækja, stórfelld skuldaaukning ríkissjóðs og minnkandi tekjur eru staðreyndir sem við blasa, eignatap, versnandi kjör, ótti og óvissa.

Margir sem bjuggu áður við ágæt kjör kvíða nú framtíðinni og kvíða komandi sumri. Margir spyrja sig hvernig þeir geti greitt reikningana um næstu mánaðamót, hvort þeir hafi efni á að fara í sumarfrí, hvort þeir geti leyft börnunum að fara í sumarbúðir og jafnvel hvað þeir geti keypt í matinn um næstu helgi.

Við sem nú höfum verið kjörin til setu á Alþingi og verið treyst til að takast á við risavaxin viðfangsefni hljótum að nálgast þau verkefni sem fram undan eru af auðmýkt. Við hljótum að leggja alla okkar krafta í að þjóna fólkinu og vinna saman að endurreisn samfélagsins. Við megum ekki láta hagsmuni fárra víkja fyrir hagsmunum margra. [Leiðr. ræðumanns: Við megum ekki láta hagsmuni margra víkja fyrir hagsmunum fárra.] Ég trúi því að á tímum sem þessum lánist okkur að taka höndum saman um breytta forgangsröðun og breytt grundvallargildi.

Þjóðin hefur talað í lýðræðislegum kosningum, þjóðin hefur valið og þjóðin hefur kosið umtalsverðar breytingar. Á Alþingi eiga nú sæti 27 nýir þingmenn og hefur endurnýjun þingmanna aldrei verið jafnmikil og nú. Á þessum tímum hlýtur það að vera krafa þjóðarinnar að við reynum að vinna saman sem ein heild og virða skoðanir hver annars.

Í fyrsta sinn í sögu Íslands eru jafnaðarmenn stærsti flokkur landsins, líkt og jafnaðarmannaflokkar hafa verið annars staðar á Norðurlöndum í áratugi og jafnvel aldir. Í fyrsta sinn í Íslandssögunni eru jafnaðarmenn og félagshyggjufólk með meiri hluta á Alþingi.

Þjóðin hefur forgangsraðað, og það val meiri hluta þjóðarinnar á að endurspeglast í þeim störfum sem fram undan eru, hvernig við nálgumst viðfangsefnin og hvernig við tökum afstöðu til þeirra. Ég er sannfærð um að þessi breytta forgangsröðun mun hafa áhrif á stefnu og störf allra stjórnmálaflokka á næstu árum. Hún hlýtur að hafa slík áhrif. Gamaldags skotgrafarhernaður sem of lengi hefur einkennt íslensk stjórnmál á ekki við á einum örlagaríkustu tímum í sögu þjóðarinnar.

Það er kallað eftir þjóðarsamstöðu og það er kallað eftir nýjum vinnubrögðum. Það er kallað eftir gagnsæi, aukinni aðkomu almennings að ákvarðanatöku og lýðræðislegum vinnubrögðum í hvívetna.

Eftir áratugareynslu af störfum Alþingis er það von mín að okkur takist nú, á þessu kjörtímabili, að móta ný vinnubrögð og nýjar hefðir þar sem hvert mál fær málefnalega og efnislega umræðu og lýðræðisleg málalok. Það er von mín að við náum að þróa breytt verklag í stað þess að mynda gamaldagsblokkir sem þjóna kjósendum að litlu leyti þegar upp er staðið.

Samfélag jafnvægis þar sem allir njóta virðingar og sannmælis, og hjálparhönd er rétt fram til þeirra sem þurfi eru, þjónar okkur öllum í reynd. Heilbrigt samfélag byggist ekki á tveimur heimum, hinna ríku og hinna fátæku, hinna sterku og hinna veiku. Nei, heilbrigt og sterkt samfélag byggist á jafnræði meðal fólksins og jöfnum tækifærum fyrir alla.

Þannig samfélög hafa verið byggð upp á Norðurlöndum og til þeirra hefur verið litið sem fyrirmynda í alþjóðasamfélaginu. Þannig samfélag telur ný ríkisstjórn að geti leitt okkur í gegnum erfiðleikana og tryggt okkur varanlega velferð.

Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar byggist á þessum sjónarmiðum. Hún byggir m.a. á reynslu ríkisstjórnar sem fyrir um 100 dögum tók við stjórninni í samfélagi sem logaði í deilum og sundrungu. Á einstaklega stuttu starfstímabili tókst ríkisstjórninni að lægja öldurnar og snúa vörn í sókn. Markviss og djörf skref voru stigin til að endurvekja traust og mæta réttmætri gagnrýni almennings.

Mál voru sett í fastari farveg og fjölbreytt úrræði mótuð, úrræði sem almenningur er þegar farinn að nýta sér og tugþúsundir manna munu njóta í þrengingum næstu missira. Endurreisnin er hafin og árangur er þegar farinn að skila sér á mörgum sviðum. Verðbólgan hefur lækkað mikið og spár Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins gera ráð fyrir hóflegum verðhækkunum það sem eftir er ársins. Á næsta ári verður því verðbólgan komin vel niður fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans samkvæmt fyrirliggjandi spám.

Um vextina vil ég segja að þeir hafa nú þegar lækkað umtalsvert enda þótt ég vilji sjá meiri vaxtalækkun verða að veruleika þegar á næstu vikum og mánuðum. Sveiflur í gengi krónunnar eru enn til staðar, en þær eru minni en áður og því eru neikvæð áhrif gengisbreytinga á verðbólguna nú mun minni en á undanförnum mánuðum.

Ég hef þegar falið Seðlabankanum að leggja mat á kosti og galla þess að breyta umgjörð peningastefnunnar hér á landi. Seðlabankinn mun skila áfangaskýrslu um þetta efni í júní nk. Seðlabankinn mun einnig gefa út á næstunni ítarlega skýrslu um fyrirkomulag peningamála með hliðsjón af hugsanlegri aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu.

Enginn vafi leikur á því að slæm skilyrði í hagkerfi heimsins munu að einhverju leyti dýpka þann samdrátt sem verður hér á landi, en gert er ráð fyrir um 10% samdrætti landsframleiðslunnar á þessu ári og að hún standi að mestu leyti í stað á því næsta. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að þegar á næsta ári glæðist hagvöxtur á nýjan leik og samdráttarskeiðið verði því styttra en við mátti búast, m.a. vegna þess mikla sveigjanleika sem íslenskur þjóðarbúskapur býr yfir.

Virðulegi forseti. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er m.a. sett fram áætlun þar sem kveðið er á um 50 mikilvæg atriði sem ríkisstjórnin ætlar sér að hrinda í framkvæmd á næstu 100 dögum. Þessi verkefni varða einkum ríkisfjármálin, endurreisn bankakerfisins, sem nú er að ljúka, endurmat á aðgerðum vegna skuldavanda heimilanna, aðgerðir til að efla atvinnu, endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu og fjölmargar lýðræðisumbætur sem lengi hefur verið kallað eftir.

Ríkisstjórnin vill leita víðtæks samráðs um sem flest mál, bæði innan þings og utan. Við lýsum okkur reiðubúin til þess að móta stöðugleikasáttmála með aðilum vinnumarkaðarins.

Við þurfum að ná sátt um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi og við köllum eftir breiðri samstöðu um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Við viljum samráð og samvinnu um sparnað í stjórnkerfinu, með þátttöku stjórnenda, starfsfólks og notendum þjónustunnar. Fram undan er gríðarlega vandasamt verkefni, jafnvel það erfiðasta sem við höfum nokkru sinni staðið frammi fyrir. Við þurfum að ná niður halla ríkissjóðs um u.þ.b. 170 milljarða króna á næstu þremur árum. Við þær aðstæður verða allir að vera tilbúnir til þess að taka á sig byrðar. Allir munu því miður finna fyrir hinum mikla samdrætti, á það vil ég ekki draga dul. En, góðir landsmenn, við munum sjá árangur aðhaldsins í hraðari uppbyggingu atvinnulífsins og minna atvinnuleysi en ella, lægri vöxtum, minni verðbólgu og þar með stöðugleika sem er besta tryggingin fyrir bættum hag heimilanna, velferð barna okkar og öryggi þeirra til framtíðar.

Ríkisstjórnin mun standa vörð um lægstu launin við þessar aðstæður og tryggja velferð þeirra sem lakast standa. Á því byggist forgangsröðun okkar og ég er sannfærð um að þeir sem eru aflögufærir og standa sterkt eru sammála henni. Ríkið á að ganga á undan með góðu fordæmi, hagræða og einfalda stjórnkerfið þar sem það er hægt og lækka laun sem eru óhóflega há þegar við blasir atvinnuleysi sem hefur lækkað ráðstöfunartekjur tugþúsunda manna umtalsvert.

Það er grundvallaratriði að leggja nú grunn að nýrri sókn í íslensku atvinnulífi og betra samfélagi, samfélagi sem mun skipa sér í fremstu röð í verðmætasköpun, velmegun, velferð og raunverulegum lífsgæðum.

Hæstv. forseti. Fyrri ríkisstjórn og sú sem nú er að hefja störf á grundvelli nýs umboðs taka í arf atvinnuleysi í sögulegu hámarki og atvinnulífi í miklum þrengingum í kjölfar hruns fjármálakerfisins. Auka þarf traust og trú á íslenskt efnahagslíf, örva innlendar fjárfestingar í atvinnulífinu, stuðla að beinum erlendum fjárfestingum og koma á eðlilegum lánaviðskiptum við erlenda banka. Atvinnulífið er og verður megingrundvöllur velferðar hér á landi. Ríkisstjórnin mun því með markvissum aðgerðum draga úr atvinnuleysi, útrýma langtímaatvinnuleysi og skapa traustari grundvöll fyrir íslenskt atvinnulíf til framtíðar.

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að mótuð verði heildstæð atvinnustefna fyrir Ísland þar sem lögð er áhersla á fjölbreytt atvinnulíf, jafnan en stöðugan hagvöxt, nýsköpun og sjálfbæra nýtingu til lands og sjávar. Íslenskir framleiðendur, nýsköpunarfyrirtæki og þeir sem starfa í ferðaþjónustu hafa þegar sýnt mikið frumkvæði og nýtt sér þau sóknarfæri sem nú gefast. Þessa aðila þarf að hvetja enn frekar til dáða og styðja þannig að hér megi skapa sem flest störf.

Jafnframt er mikilvægt að huga að samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs í alþjóðlegum samanburði. Afar mikilvægt er að byggt verði á þeim grundvallarmarkmiðum að ríkið losi sig svo fljótt sem kostur er út úr hvers kyns samkeppnisrekstri og opni fyrir erlenda eignaraðild.

Góðir landsmenn. Öll venjuleg íslensk heimili finna fyrir þeim hremmingum sem þjóðin gengur nú í gegnum. Mjög margir hafa tapað sparifé eða fjárfestingum, höfuðstóll lánanna hefur hækkað, hvort sem um er að ræða bílalán, húsnæðislán eða önnur gengis- eða vísitölubundin lán, en eignaverðið jafnvel lækkað á móti hjá mörgum.

Enn aðrir hafa nú lægri tekjur eða hafa jafnvel misst vinnuna og öll finnum við fyrir hækkandi verðlagi á matvöru, fatnaði og öðrum nauðsynjavörum. Öll íslensk heimili finna fyrir þeim gríðarlegu umskiptum sem orðið hafa í íslensku efnahagslífi á aðeins örfáum mánuðum. Á einu ári hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna lækkað um rúm 11% og allar líkur eru á því að ástandið eigi eftir að versna áður en það batnar á ný.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa fyrst og fremst beinst að því að verja kjör hinna verst settu annars vegar og húsnæðisöryggi fólks hins vegar. Þær fjölmörgu aðgerðir sem gripið hefur verið til í þessum efnum lúta fyrst og fremst að því að gera heimilum landsins kleift að halda í húseignir sínar á meðan á dýpstu efnahagslægðinni stendur og laga skuldirnar að greiðslugetunni.

Það er staðfastur ásetningur ríkisstjórnarinnar að fylgjast vel með þróun þessara mála hjá heimilum landsins og bregðast við í samræmi við þau markmið sem ég hef hér lýst. Þurfi að grípa til frekari aðgerða til að tryggja húsnæðisöryggi fjölskyldna þessa lands munum við grípa til slíkra aðgerða. Við tökumst á við kjaraskerðinguna og eignarýrnunina með því að efla atvinnulífið og auka þannig hagvöxt og kaupmátt á ný. Á sama tíma verðum við að standa vörð um þá sem lökust hafa kjörin, fyrir þá þarf öryggisnetið að virka best á tímum sem þessum.

Góðir landsmenn. Sæki Íslendingar um aðild að Evrópusambandinu og hefji formlegar aðildarviðræður skapast traustari forsendur fyrir stöðugra gengi íslensku krónunnar og lækkun vaxtastigs. Þannig mundu jákvæð áhrif koma fram strax þegar ósk um aðildarviðræður lægi fyrir og búast má við að þau jákvæðu áhrif fari vaxandi eftir því sem umsóknarferlið gengur lengra. Aðildarumsóknin ein og sér er því hluti af lausn á þeim bráðavanda sem við glímum við um leið og hún leggur grunninn að traustri framtíð og er leiðarljós stöðugleika inn í framtíðina. Á því þarf atvinnulífið nú að halda og slík umsókn mun jafnframt endurvekja traust alþjóðasamfélagsins og erlendra fjárfesta á Íslandi.

Við skulum hafa í huga að á hverjum degi greiða íslenskar fjölskyldur kostnaðinn af því að standa utan Evrópusambandsins í formi vaxtagreiðslna sem eru margfalt hærri hér en í Evrópusambandinu og í formi hærra verðs á matvælum og öðrum nauðsynjum sem mundu lækka mikið við Evrópusambandsaðild. Verðtryggingin er líka þungur baggi sem er fórnarkostnaður sem fylgir íslensku krónunni. Fyrirtækin í landinu greiða kostnaðinn í formi einnar mestu vaxtabyrði í heimi, gríðarlegs óstöðugleika í gengi og mikillar verðbólgu.

Það er skylda okkar að búa íslensku atvinnulífi jafngóð eða betri rekstrarskilyrði en í helstu samkeppnislöndunum. Á því veltur framtíðaruppbygging atvinnuveganna sem er um leið einn megingrundvöllur velferðar heimila og fjölskyldna í landinu.

Ég legg samt sem áður ríka áherslu á að Evrópusambandsaðild ein og sér er engin töfralausn. Það eru engar töfralausnir til við þeim bráðavanda sem við stöndum frammi fyrir en við þurfum engu að síður vegvísi að stöðugleika inn í framtíðina.

Í þeirri þingsályktunartillögu sem utanríkisráðherra mun leggja fram verða gerðir fyrirvarar um grundvallarhagsmuni Íslands um forræði yfir vatns- og orkuauðlindum og ráðstöfun þeirra, um forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni, um öflugan landbúnað, almannaþjónustu og réttindi launafólks og vinnurétt.

Hæstv. forseti. Evrópusambandsaðild merkir ekki afsal auðlinda, hvorki í sjávarútvegi, orkumálum né landbúnaði. Evrópusambandið hefur sameiginlegar reglur um nýtingu sameiginlegra auðlinda, svo sem sameiginlegra fiskstofna, en eignarhald á auðlindunum er hjá viðkomandi aðildarríkjum. Þess vegna mun Evrópusambandsaðild ekki hafa áhrif á eignarhald á fiski í sjó, á endurnýtanlegum orkuauðlindum eða olíu á landgrunninu.

Það þarf samkomulag og sátt á meðal aðildarríkjanna um nýtingu fiskstofna sem færast á milli lögsögu aðildarríkjanna, rétt eins og Ísland hefur hingað til gert samkomulag við nágrannaríki um nýtingu deilistofna. Sú sátt byggir á sögulegri veiðireynslu þar sem tryggt er að hvert og eitt aðildarríki njóti óbreyttrar hlutdeildar í fiskstofnum.

Reglur Evrópusambandsins um hlutfallslegan stöðugleika munu tryggja að Ísland muni sem áður sitja eitt að öllum kvóta í staðbundnum stofnum í íslenskri lögsögu eftir aðild að Evrópusambandinu.

Umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu og sjávarútveg má því ekki aðeins snúast um vörn og varnarhagsmuni. Íslenskir sjómenn búa yfir gríðarlegri þekkingu og hér eru sjávarútvegsfyrirtæki sem hafa burði til þess að keppa á frjálsum markaði hvar sem er í heiminum. Við getum sótt fram og byggt upp innan Evrópusambandsins.

Góðir landsmenn. Hvorki ég né aðrir á Alþingi geta sagt til um hver verður niðurstaða samningaviðræðna við Evrópusambandið um sjávarútveg en ég fullyrði að samningsstaða Íslands er sterk. Hún er m.a. sterk vegna þeirrar framsýni og þess hugrekkis sem íslenska þjóðin sýndi þegar landhelgin var færð út í áföngum í 200 mílur. Mín framtíðarsýn er að Ísland verði leiðandi í mótun og stjórn sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og leiðandi í sjávarútvegi í Evrópu. Ég hef fulla trú á að það takist.

Evrópusambandið hefur sýnt sérstakan sveigjanleika vegna landbúnaðar á harðbýlum, norðlægum svæðum. Það er því ekkert sem bendir til annars en að sjónarmið Íslands muni njóta skilnings og að hægt verði að tryggja traust rekstrarskilyrði fyrir íslenska bændur til framtíðar. Óumdeilt er að íslenskur landbúnaður mundi eiga aðgang að umfangsmiklu styrkjakerfi Evrópusambandsins og fyrir liggur að íslensk stjórnvöld mundu leggja landbúnaðinum til fjármuni á móti slíkum styrkjum.

Fyrirsjáanlegt er að Ísland þurfi innan fárra ára að aðlaga styrkjakerfi fyrir íslenskan landbúnað, vegna breyttra reglna á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, óháð því hvort Ísland gengur í Evrópusambandið eða ekki.

Færa má rök fyrir því að Evrópusambandið geti veitt íslenskum landbúnaði ákveðið skjól, ekki síst vegna þess að Evrópusambandið er leiðandi í mótun reglna um landbúnað í Alþjóðaviðskiptastofnuninni og annars staðar á alþjóðlegum vettvangi.

Virðulegi forseti. Það er kallað eftir nýjum vinnubrögðum, nýjum tækifærum og auknu trausti og tengslum milli þingheims og þjóðar. Þjóðin og við þingmenn höfum árum saman hlýtt á raddir og röksemdir hagsmunahópa sem eru fyrir fram með eða á móti Evrópusambandinu. Það hefur gert umræðuna ómarkvissa. Ég vil að þjóðin fái í eitt skipti fyrir öll að heyra sannleikann í þessu máli sem við höfum rætt allt of lengi án skýrrar niðurstöðu.

Góðir Íslendingar. Óvíða eru einkenni árstíða jafnsterk og hér á landi og vera kann að það móti okkur sem einstaklinga og sem þjóð. Alþingi kemur saman hér í kvöld, þegar við finnum hvað sterkast fyrir gróanda vorsins, á árstíma sem felur í sér væntingar og vonir um betri tíð. Þrengingarnar eru sannarlega ekki að baki, en við sem þjóð höfum fullt tilefni til að líta björtum augum til framtíðar og taka sumrinu fagnandi. Það er undir okkur sjálfum komið hvernig við vinnum okkur út úr erfiðum málum, og bjartsýni og áræðni þurfa sem aldrei fyrr að vera ríkjandi. Jóhanna Guðrún og fylgdarlið hennar í söngvakeppninni — stolt íslensku þjóðarinnar — eru okkur sannarlega þar til eftirbreytni.

Ég heiti ykkur því, góðir landsmenn, að mín ríkisstjórn mun nýta sumarið vel. Hún mun vinna af krafti og festu til að bæta stöðu fólksins í landinu og efla atvinnulífið til dáða. Ég hvet ykkur öll til að gera slíkt hið sama, bretta upp ermar og hefjast handa við þá uppbyggingu sem fram undan er. Þannig munum við snúa vörn í sókn.

Við alþingismenn og ríkisstjórn tökumst nú á við verkefni okkar af einurð og full auðmýktar. Við búum við þá gæfu að eiga sterka og vel gerða þjóð og ég er sannfærð um að við munum sýna alþjóðasamfélaginu hvað í okkur býr með því að vinna okkur fyrst allra þjóða út úr þeim efnahagsþrengingum sem við göngum nú í gegnum. — Góðar stundir.