137. löggjafarþing — 2. fundur,  18. maí 2009.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:10]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Góðir Íslendingar. Á dögunum kom út vorskýrsla fjármálaráðuneytisins um þjóðarbúskapinn. Óhætt er að segja að skýrslan endurspegli þá miklu óvissu sem nú er í efnahagsmálum þjóðarinnar. Í raun má segja að allir helstu áhrifaþættir í íslensku efnahagslífi séu mjög viðkvæmir núna hvort sem litið er til endurreisnar bankakerfisins, gengismála, heimila, fyrirtækja eða framkvæmda. Við höfum engan raunverulegan vegvísi inn í framtíðina enn og því miður kom afar fátt fram í aðdraganda kosninga til að varpa ljósi á þetta viðkvæma ástand.

Aðalverkefnið núna er að gera sér almennilega grein fyrir stöðu þjóðarinnar og setja fram raunhæf markmið til þess að mæta þeim bráðavanda sem fjölskyldur og fyrirtæki standa frammi fyrir. Á sama tíma er nauðsynlegt að við Íslendingar setjum okkur skýr markmið inn í framtíðina.

Þótt vandinn í íslensku efnahagskerfi sé mikill má ekki gleyma því að heimurinn allur stendur frammi fyrir miklum erfiðleikum. Víða í Evrópu er kreppan enn að dýpka og t.d. á Bretlandi sjá menn fram á mjög alvarlegt ástand. Ísland er hluti af þessum alþjóðlegu mörkuðum, við erum ekki einangruð hér norður í hafi og eigum ekki að líta svo á. Þvert á móti erum við, rétt eins og önnur ríki, tannhjól í hagkerfi heimsins þótt smátt sé. Okkar útflutningsgreinar hafa hlutverki að gegna á alþjóðlegum mörkuðum, við seljum ekki fisk nema aðrir kaupi.

Ný ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tekur nú við stjórnartaumunum eftir að hafa aukið styrk sinn í liðnum kosningum. Þessarar ríkisstjórnar bíður afar vandasamt verk. Ég vil óska forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar alls góðs við það að leysa úr erfiðum verkefnum fyrir heill lands og þjóðar. Við sjálfstæðismenn munum styðja ríkisstjórnina í öllum þeim verkum hennar sem til framfara horfa fyrir þjóðina en við munum jafnframt veita ríkisstjórninni málefnalegt og kröftugt aðhald.

Ég vil hvetja þessa ríkisstjórn til þess að missa aldrei sjónar á því meginverkefni sínu og okkar hinna sem byggja landið. Við verðum að koma þjóðinni aftur á lygnan sjó, við verðum að skapa hér blómlegt samfélag þar sem hver og einn fær notið sín. Það má ekki varpa þeim vanda sem núlifandi kynslóðir standa frammi fyrir á komandi kynslóðir Íslendinga. Við verðum sjálf að takast á við erfiðleika dagsins. Við skulum ekki láta börnin okkar fá þá í arf.

Hæstv. forsætisráðherra talaði því miður mjög almennt í ræðu sinni hér í kvöld og er það nokkurt áhyggjuefni, ekki síst vegna þess að sú ríkisstjórn sem nú situr byggir á grunni þeirrar minnihlutastjórnar sem sat hér í aðdraganda kosninga. Þess vegna ætti hæstv. forsætisráðherra að hafa haft gott tækifæri til að undirbúa næstu skref. Málefnasamningur ríkisstjórnarinnar og stefnuræða hæstv. forsætisráðherra kallar fram mun fleiri spurningar en svör. Hæstv. fjármálaráðherra og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs bætti því miður afar fáu við. Við þetta mæta fólk vil ég segja: Höfum náið samstarf við þá sem geta hjálpað okkur. Við skulum horfa til útlanda og læra af þeim sem lent hafa í sambærilegri stöðu og vita hvernig þau ætla að bregðast við núna.

Hér er mikið talað um norræna módelið. Gott og vel. En þar eru líka vandamál og við verðum að hlusta eftir því hvað nágrannaþjóðir okkar hefðu viljað vera án. Við viljum ekki lenda hér í viðvarandi atvinnuleysi sem er einmitt það sem margar þessara þjóða berjast við.

Frú forseti. Það er ekki nóg að tala um gagnsæi og að leggja spilin á borðið þegar það er bara í orði en ekki á borði. Það er rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að við verðum öll að leggjast á árarnar, við þingmenn og þjóðin öll, en þá verða menn að tala hreint út. Ætlum við að nýta okkur krafta þjóðarinnar á breiðum grunni eða ætlum við að horfa á málið frá þröngum sjónarhóli ríkisrekstrarins? Ætlum við að láta þá þróun halda áfram að hvert fyrirtækið á fætur öðru verði í forsjá ríkisbanka, nú síðast Icelandair? Það má ekki verða. Ég skora á ríkisstjórnina að leita allra leiða til þess að koma í veg fyrir að hvert fyrirtækið á fætur öðru lendi í bókhaldi ríkisbanka. Slíkt er einungis til þess fallið að draga kraft úr atvinnulífinu, frumkvæði þess og elju.

Góðir landsmenn. Við höfum alla burði til þess að komast sæmilega hratt út úr þeim vanda sem við blasir. Grunngerð samfélagsins stendur traustum fótum. En á sama tíma verðum við að horfa til næstu kynslóða og leggja nú þegar grunn að aukinni hagsæld þjóðarinnar. Það gerum við með því að leiða saman ólíka hópa í þjóðfélaginu. Við eigum að nýta háskólasamfélagið markvisst og tefla því fram með atvinnulífinu og hagsmunaaðilum til að auka bæði nýsköpun og þróun.

Fram undan er þungbær niðurskurður og vafalaust verður þar engu eirt eða nánast ekki. Við skulum ekki blekkja okkur með því að halda öðru fram. Í þeirri vinnu má ekki gleyma að vel menntuð og víðsýn þjóð er jafnframt þróttmikil og hugmyndarík þjóð. Þar er fjöregg okkar Íslendinga. — Góðar stundir.