137. löggjafarþing — 2. fundur,  18. maí 2009.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:16]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Góðir Íslendingar. Í nótt var sólarupprásin fögur út um gluggann. Esjan skartaði sínu fegursta og smábátahöfnin dormaði. Það var kyrrð yfir Faxaflóa og sumarið var komið. Það verður að segjast eins og er að í kreppu er einkar gott að sjá til sólar og finna fyrir þakklæti.

Ég er þakklát fyrir að búa í landi stórbrotinnar náttúru, landi þar sem er hreint vatn og ferskt loft og hiti og rafmagn og sundlaugar og haf. Ég er þakklát fyrir tónlist í túnfætinum heima. Það er uppselt á tónleika Víkings Heiðars og EES-ríkin unnu Evróvisjón.

Ég er þakklát að búa í landi þar sem nýfæddum syni er bjargað af framúrskarandi heilbrigðisstarfsfólki, landi þar sem hann fær að eiga tvær mömmur og alast upp við rótgrónar kvenfrelsis- og jafnréttisraddir sem krefjast gjörða en ekki bara orða. En ég er líka óþolinmóð því að það er ótal margt sem við þurfum enn að gera, köllin berast alls staðar að. Það eru köll heimila og fjölskyldna og fyrirtækja, hróp á meiri hjálp, skýrari aðgerðir, hraðari vinnu og betri upplýsingar. Margt gott hefur verið gert á stuttum tíma af fólki sem hér vinnur dag og nótt en skriðan er þung og margslungin og Ísland þarf á okkur öllum að halda.

Hæstv. forsætisráðherra nefndi þá framsýni sem sýnd var þegar landhelgin var færð út í 4, 12, 50 og 200 sjómílur. Það er við hæfi að rifja þá sögu upp. Þótt varðskipið Þór sé ekki hér að klippa á víra geisar nefnilega eiturhörð barátta um lífsafkomu íslensks samfélags til framtíðar. Baráttan nú er alþjóðleg og snýst m.a. um það hvort þorri almennings víða um heim nær að verjast áframhaldandi spilavítiskapítalisma og arðráni. Það er ekki bara á Íslandi sem auðlindir þjappast saman á hendur fárra og gufa svo upp, ó nei, þetta er ekki bara einhverjum 30 einstaklingum að kenna. Þetta er lögskipað heimskerfi sem færir gríðarleg auðæfi frá suðri til norðurs, frá samfélögum til auðhringja, frá frumbyggjum til miðstýrðs valds, frá fólki til fjármagnseigenda, kerfi sem skilur eftir sig sviðna jörð í lífríki jarðar. Einmitt nú hefur þessi barátta náð til Íslands af fullum þunga. Hvernig ætlum við að verjast, hver bjargar verðmætum þjóðar af hugrekki?

Fyrrum sjávarútvegsráðherra, Lúðvík Jósepsson, skýrði frá því hvernig sumir pólitískir andstæðingar gátu ekki stutt útfærslu landhelginnar þar eð slíkt gengi gegn hagsmunum Breta og mundi hugsanlega styggja Atlantshafsbandalagið. Ég spyr: Hvar værum við nú ef við hefðum ekki haft kjark til að verja rétt smárra samfélaga og ganga gegn kröfum Atlantshafsbandalags og Efnahagsbandalags Evrópu þess tíma, eða svo við heimfærum þetta upp á nútímann: Alþjóðagjaldeyrissjóðs og Evrópusambands?

Nú ríður á að sagan endurtaki sig ekki, að fólk kikni ekki í hnjánum og gefist ekki upp þótt Evrópusambandið hnerri eða Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fyrirskipi. Það eitt skiptir máli að bjarga heimilunum í landinu, að koma hið fyrsta upp gagnsæju, viðráðanlegu og skilvirku bankakerfi og uppræta alla spillingu og leynimakk og snarlækka vexti. Hver sú stofnun sem kemur í veg fyrir að slíkt megi verða verður einfaldlega að fá hnefann í borðið.

Bandarískur vinur minn, sem er doktor í hagfræði frá Harvard, spurði mig spurningar í gærkvöldi. Hann spurði: Hvort þurfti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn meira á Íslandi að halda eða Ísland á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Svar hans var skýrt: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurfti meira á Íslandi að halda. Kreppan var himnasending fyrir stofnun sem var rúin trúverðugleika og hafði æ minna hlutverki að gegna á alþjóðlegum vettvangi. Glórulaus hávaxtastefna og blæðandi samfélög, stoppað upp í fjárlagagöt með ógnvænlegum hraða, skuldir greiddar í topp með vöxtum og vaxtavöxtum, velferðarkerfið holað að innan. Við verðum að læra af sögunni, það er um framtíð Íslands að tefla.

Ein sterkasta kreddan sem nú gengur ljósum logum hér á landi er að aðild að ESB bjargi Íslandi. Það er ekki svo. Eða eigum við kannski að horfa í kringum okkur? Eigum við t.d. að nefna langvarandi atvinnuleysi á Spáni sem nú nálgast 20%, hrunið í evruríkinu Írlandi, vini okkar í Eystrasaltsríkjunum? Ég skora á hæstv. forsætisráðherra að tala einungis fyrir hennar flokk en ekki okkur hin þegar hún talar fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu, þann stóra dóm mun einungis þing og þjóð kveða upp.

Nú skiptir öllu að sameinast um það sem við getum sameinast um, láta hitt vera. Getum við t.d. sameinast um að láta kreppuna skila börnunum okkar betri tannheilsu en góðærinu tókst að gera, svo fátt eitt sé nefnt? Er leið í kreppu til að byggja barnvænna samfélag, samfélag þar sem besti vinur barnanna, tíminn og samveran eru höfð í fyrirrúmi. Eru heilbrigðisstofnanir okkar, leikskólar og grunnskólar e.t.v. betur mannaðir núna en í góðærinu þar sem stöðug mannekla háði öllu starfi? Sóknarfærin eru til staðar þrátt fyrir niðurskurð, blóðugan niðurskurð, hagræðingu og erfiðleika næstu missirin. Langtum fátækari kynslóðir byggðu hér grunn að velferðarsamfélagi jafnaðar og menningar. Án þrjósku forfeðra okkar og formæðra værum við ekki hér en hér erum við og nú er það upp á okkur komið að sýna sömu þrjóskuna og sama baráttuandann. Nú duga bara skýrar aðgerðir en þær duga einungis ef við ráðumst í þær af sameiningu, samstillt, áköf og gagnrýnin á okkur sjálf en bjartsýn þrátt fyrir allt í sólinni á okkar fagra landi. — Lifið heil.