137. löggjafarþing — 2. fundur,  18. maí 2009.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ágætu Íslendingar. Undanfarna daga hef ég verið nokkuð hugsi yfir stjórnskipulegri stöðu Íslands og hvaða augum æðstu ráðamenn þjóðarinnar líta hana. Ráðherrar í ríkisstjórninni eru ósamstiga í afstöðu sinni um hlutverks Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi. Svo virðist sem ríkisstjórnin hafi ekki fulla stjórn á málum, eins og lög segja til um, því að hið alþjóðlega vald sem fylgir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum virðist ganga framar sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar. Samkvæmt lögum á peningastefnunefnd að ákvarða stýrivexti Seðlabankans. Ákvarðanir nefndarinnar skulu grundvallast á markmiðum bankans og vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum og fjármálastöðugleika. Ráðherrar í ríkisstjórninni hafa sagt að hér geti vextir lækkað mjög hratt.

Einhverra hluta vegna er hún ákaflega hol rödd hæstv. efnahagsmálaráðherra er hann telur að svigrúm sé til vaxtalækkana þvert á skoðun fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Einhver hluti ríkisstjórnarinnar — fulltrúar Vinstri grænna — er ósáttur við veru sjóðsins hér á landi og hafa ráðherrar flokksins látið ýmislegt flakka í umræðunni, svo sem að það sé „beinlínis þjóðhættuleg stefna að halda vöxtum uppi“ og að „Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn andi köldu ofan í hálsmálið á mönnum í Seðlabankanum sem eigi að taka sjálfstæða afstöðu til vaxtastigsins“. Afstaða sjóðsins hræðir mig, sér í lagi er litið er til jöklabréfanna.

Ég tel að með svo háum stýrivöxtum sé verið að vernda hagsmuni aðila sem eru óæskilegir í íslensku fjármálalífi, það verður að hefja rannsókn á því hverjir eru raunverulegir eigendur jöklabréfanna. Þeir sem hafa keypt jöklabréf njóta þess að fá greidda háa vexti, vexti sem fyrirtækin og heimilin í landinu borga og blæða fyrir. Á móti bera þeir hins vegar gengisáhættu. Falli krónan verður tap en ef krónan styrkist verður hagnaður.

Á þessum forsendum er það varla tilviljun að mínu mati að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn neitar Seðlabankanum um að lækka stýrivexti þar til krónan styrkist. Ríkisstjórnin hefur slegið myndarlega skjaldborg um fjármagnseigendur og lánardrottna, erlenda sem innlenda.

Ríkisstjórninni virðist vera sama um fjölskyldurnar og fyrirtækin í landinu. Skuldaniðurfelling er sögð kosta ríkissjóð svo og svo mikið en þegar 200 milljörðum var dælt í peningamarkaðssjóði bankanna heyrðist ekki múkk. Þetta er mismunun á sparnaðarleiðum og mismunun skal það heita.

Einu aðgerðir vinstri stjórnarinnar sem hefur harða frjálshyggjustefnu í efnahagsmálum er að koma með aðgerðir þegar fólk og fyrirtæki hafa misst allt sitt. Að lengja í lánum þeirra sem sýnt geta fram á sem lélegastar framtíðarhorfur fyrir fjölskylduna og börnin sín er hættulegt fordæmi. Þá erum við ekki lengur að tala um lán til 40 ára, við erum að tala um lán til 50 ára, 60 ára og jafnvel 70 ára, lánin lifa því kynslóð eftir kynslóð ef tillögur ríkisstjórnarinnar um þessa lengingu verða algengar og ná fram að ganga.

Ég kalla eftir mannlegri reisn til handa fólki sem komið er í öngstræti. Ríkisstjórnin heldur niðurrifsstarfseminni áfram og af þrjósku virðast ráðherrar hennar ekki taka tillit til 20% leiðréttingarleiðar Framsóknarflokksins, sennilega af því að ríkisstjórnin átti ekki hugmyndina sjálf, fyrir utan það að margir þeirra sem hafa tjáð sig um tillöguna virðast ekki hafa skilið út á hvað hún gengur. Þetta er forkastanleg framkoma gagnvart almenningi og fyrirtækjum í landinu.

Þegar áherslur þeirra flokka sem mynda núverandi ríkisstjórn eru skoðaðar verður tæpast séð að þeir geti starfað lengi saman. Það er eins og flestir séu búnir að gleyma því að Samfylkingin hafði verið í ríkisstjórn í tæp tvö ár þegar bankarnir féllu. Hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson voru ráðherrar í ríkisstjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Geirs H. Haarde. Einhverjir mundu segja að það tæki skemmri tíma en 18 mánuði að komast til fullrar vitundar og muna eftir því að hafa verið í þeirri ríkisstjórn. Þetta kallast afneitun á íslensku.

Það var áfellisdómur yfir ríkisstjórninni að grípa ekki til harkalegri viðbragða þegar allt fór hér í þrot. Heil þjóð fór á hausinn og ríkisstjórnin gerði ekki neitt.

Nú hefur komið í ljós að Seðlabankinn var með neyðaráætlun — vissi ríkisstjórnin ekki af þeirri neyðaráætlun sem síðar varð uppspretta hinna umdeildu neyðarlaga? Látum vera að fyrrverandi bankamálaráðherra hafi ekki vitað af henni, hann sagði hróðugur frá því úr þessum ræðustóli að hann hefði ekki verið í miklu sambandi við seðlabankastjórann á þessum tíma — sjálfur viðskiptaráðherrann.

Við höfum enn sama utanríkisráðherrann, hví brást hann ekki við strax eftir hrunið og mótmælti meðferðinni á okkur? Hví skrifar hann nú 1.400 kurteisisbréf á vordögum til breskra þingmanna? Hvað er verið að undirbúa? Jú, það er verið að undirbúa aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Nú ætlast ríkisstjórnin til þess að Alþingi samþykki einhliða þingmannaþingsályktunartillögu um að senda þennan sama mann, þennan utanríkisráðherra — sem lyppaðist niður eins og bráðið smjör við hörku Bretanna gagnvart okkur í hruninu — til Brussel að semja um málefni þjóðarinnar.

Samfylkingin hefur ekki burði til þess að koma málefninu á dagskrá ríkisstjórnarinnar eins og hún lofaði þó fyrir kosningar og Vinstri grænir vilja ekki til Brussel. Svo stórt mál eins og afsal þjóðarinnar á fullveldisrétti sínum verður að vera ríkisstjórnarmál. Ísland er lýðræðisríki þar sem Alþingi og forseti fara saman með löggjafarvald og forseti og önnur stjórnvöld fara samkvæmt stjórnarskránni og landslögum með framkvæmdarvaldið.

Ágætu Íslendingar. Við framsóknarmenn höfum talað í lausnum. Við viljum koma heimilum og fyrirtækjum til hjálpar. Við viljum að allir vinnufærir einstaklingar hafi atvinnu. Við höfum talað kjark í þjóðina. Ég skora á ríkisstjórnina að taka upp efnahagstillögur Framsóknarflokksins til heilla fyrir íslenska þjóð.