137. löggjafarþing — 2. fundur,  18. maí 2009.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegur forseti. Góðir Íslendingar. Í dag erum við í öldudal og nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að allir standi saman. Þegar þrengir að þarf hver og einn að líta í eigin barm og skoða hvað má gera betur og með hvaða hætti.

Margir urðu fyrir vonbrigðum með stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar er öll áherslan á langlokur í stað lausna, þar kemur lítið fram um það hvernig koma á fyrirtækjunum í landinu til hjálpar. Ríkisstjórnin verður að koma með frekari útfærslur á því hvernig fyrirtækjum og heimilum verður gert kleift að vinna sig út úr þeim erfiðleikum sem þau nú eru í.

Boðuð fyrningarleið ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegi um að innkalla aflaheimildir sem útgerðarfyrirtæki landsins hafa keypt mun setja mörg byggðarlög í mikinn vanda en víða á landsbyggðinni er sjávarútvegurinn undirstaða alls samfélagsins. Ekki nóg með það heldur mun þetta setja þau fyrirtæki sem í greininni starfa í þrot. Öllum hlýtur að vera ljóst að það gengur ekki að skilja þessi fyrirtæki eftir með skuldirnar og á sama tíma hirða af þeim tækifærin til að skapa tekjur til að standa í skilum. Mér finnst það afar furðuleg ráðstöfun hjá ríkisstjórninni á þessum erfiðu tímum og viðbrögð ýmissa sveitarfélaga víða um land sýna að þessi áform ríkisstjórnarinnar valda óvissu og draga þrótt úr mönnum.

Eru núverandi verkefni ekki nægjanleg? Er skynsamlegt að fara í það að setja allan sjávarútveg á Íslandi í uppnám? Það er kaldhæðnislegt að á sama tíma og ríkisstjórnin boðar þessa aðför gegn sjávarútvegi í landinu er skrifað í stjórnarsáttmálann að skapa þurfi íslenskum sjávarútvegi bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og að sjávarútvegur gegni lykilhlutverki í endurreisninni.

Virðulegur forseti. Aðstæðurnar núna eru þannig að við verðum að hætta að tala í frösum og fara að tala um hlutina eins og þeir eru. Mig langar að nefna eitt dæmi. Fyrir tveimur árum ákvað einn útgerðarmaður í Ólafsvík að selja frá sér kvótann. Tveir útgerðarmenn á Rifi fjárfestu í þessum kvóta til að treysta rekstrargrundvöll útgerða sinna og til að halda kvótunum í byggðinni. Kaupverðið var 78 millj. kr. Í dag standa lánin í 173 milljónum. Jafnframt hefur kvótinn verið skertur um 15% frá því að þeir keyptu hann. Ljóst er að hvorugt þessara fyrirtækja mun lifa af ef fyrningarleiðin verður farin. Á sama tíma hefur hins vegar sá sem seldi kvótann getað ávaxtað sölutekjur sínar á háum vöxtum. Jafnframt hélt hann eftir bátnum og mun, ef boðaðar strandveiðar verða að veruleika, koma aftur inn í greinina endurgjaldslaust. Er þetta sáttin sem þarf að nást við þjóðina?

Þetta er ekki einsdæmi því að víða um land eru bátar í tugatali nú kvótalausir eftir að eigendur þeirra seldu aflaheimildir sínar og bíða nú eftir að verða hleypt aftur inn í kerfið og sumir hverjir í annað, þriðja eða fjórða sinn. Að mínu mati er þetta siðlaust, það á ekkert skylt við réttlæti og því síður sátt. Áform ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum sýna vel hve holur hljómur er í yfirlýsingum hennar um að byggja upp atvinnulífið.

Yfirlýsingar fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, um að endurskoða hvalveiðar eftir þessa vertíð og hugsanlega stöðvun þeirra hefur kippt stoðunum undan áformum um uppsetningu vinnslustöðvar á Akranesi. Hér er um mikið áfall fyrir atvinnulífið á Akranesi að ræða enda vissu menn að vinnslan mundi skapa fjölda starfa. Það er afar óskynsamlegt að nýta ekki þessa auðlind okkar því að ekki veitir okkur af störfunum og ekki síður höfum við nú þörf á að auka útflutningstekjur okkar. Hér er tækifæri sem vert er að nýta öllum Íslendingum til góðs.

Ég vil því nota þetta tækifæri til að skora á hæstv. sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason að boða til fundar á Akranesi með forsvarsmönnum bæjarfélagsins, verkalýðsfélagsins og hagsmunaaðilum í greininni þannig að finna megi leiðir til að hægt verði að fara á fullt í uppbyggingu vegna hvalveiða og vinnslu.

Góðir landsmenn. Tala þarf kjark í þjóðina og eyða óvissu og ótta. Ég vona að okkur hér á þingi takist að gera það. Ríkisstjórninni óska ég velfarnaðar í sínum vandasömu störfum landi og þjóð til heilla. — Góðar stundir.