137. löggjafarþing — 2. fundur,  18. maí 2009.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:45]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Við íslensku þjóðinni blasir stórt og umfangsmikið verkefni sem er endurreisn íslensks efnahagslífs. Hið nýja Ísland þarf að byggja á öðrum grunni með aukinn jöfnuð að leiðarljósi. Þegar tekið verður á þeim erfiðleikum sem fram undan eru þarf að leggja sérstaka áherslu á að hlífa félags-, velferðar- og menntakerfinu.

Þegar rætt er um jöfnuð er einnig mikilvægt að hafa í huga að stór hluti fólks og heilu byggðarlögin tóku aldrei þátt í þessu svokallaða góðæri sem talað hefur verið um. Mörg þessara svæða hafa mátt þola fólksfækkun og neikvæðan hagvöxt svo árum skiptir. Þetta eru einkum samfélög þar sem atvinnulíf er sérhæft, t.d. öflug landbúnaðar- og sjávarútvegshéruð. Þarna er um að ræða atvinnugreinar sem eru gjaldeyrisskapandi og eiga mikla vaxtarmöguleika ef rétt er á málum haldið.

Landbúnaður og sjávarútvegur eru grunnatvinnugreinar margra byggðarlaga og ný ríkisstjórn setur fram öfluga framtíðarsýn hvað þetta snertir. Þegar kemur að landbúnaði er það vilji núverandi ríkisstjórnar að standa vörð um innlendan landbúnað, tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar og jafnframt að standa vörð um störf í matvælaiðnaði. Í sjávarútvegi má nefna endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu þar sem áhersla verður lögð á að tryggja atvinnuöryggi og réttindi einstakra byggðarlaga. Auk þessa má nefna aðgerðir til eflingar ferðaþjónustu og innlendrar framleiðslu um land allt.

Góðir Íslendingar. Innan skamms verður lögð fyrir Alþingi þingsályktunartillaga er varðar umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Það er sameiginlegur skilningur stjórnarflokkanna að við afgreiðslu á þessari tillögu muni hver og einn alþingismaður fylgja eigin sannfæringu og málið fái þannig lýðræðislega meðferð hér í þinginu. Á næstu árum þurfa Íslendingar að takast á við mjög stórt og umfangsmikið verkefni. Það gerir kröfu til þess að þjóðin standi þétt saman og að þjóðarsátt náist um þau verkefni sem fram undan eru. Það er miður ef nægur þingstyrkur er fyrir máli af þessu tagi sem felur í sér gríðarlegan kostnað, mikla vinnu og sundrung í íslensku samfélagi á sama tíma og heimili og fyrirtæki landsins þarfnast allra þeirra krafta sem við eigum. Mín skoðun er sú að hag Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins og að nú sé ekki rétti tíminn til að takast á við þessi mál. Þeirri skoðun mun ég fylgja bæði innan og utan veggja Alþingis. Sjálfstæðið er sívirk auðlind og það er sjálfstæði Íslendinga ásamt jöfnuði, krafti og samstöðu sem mun byggja upp hið nýja Ísland.

Góðir Íslendingar. Sem nýr og jafnframt sem yngsti þingmaður Alþingis vil ég að endingu segja að ég hlakka til að takast á við þetta krefjandi verkefni. Ég mun starfa af fullum heilindum og leggja mig allan fram í þágu íslensks samfélags. — Lifið heil.