137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

skýrsla um stöðu íslensku bankanna.

[13:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Nú liggur fyrir skýrsla endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte og matsfyrirtækisins Wyman um stöðu íslensku bankanna. Í þessum skýrslum er farið yfir stöðu hvers einasta fyrirtækis, eða það hefur verið metið, sem bankarnir hafa lánað peninga og þetta er þar af leiðandi miklu ítarlegra mat en áður hefur verið unnið á stöðu íslenskra efnahagsmála og hvað er í vændum. Ríkisstjórnin hefur enda ítrekað vísað í þetta plagg, eða gerði það, að þetta væru upplýsingar sem þyrftu að liggja fyrir áður en næstu skref yrðu stigin.

Ég spyr fjármálaráðherra: Hyggst hann upplýsa þjóðina um það sem þarna birtist? Hefur hann fengið dulkóðann að herberginu í ráðuneytinu sínu þar sem þessi skýrsla er geymd og ef hann er ekki tilbúinn til að treysta þjóðinni fyrir þeim upplýsingum sem þar er að finna þó ekki væri nema að litlum hluta, ef hann getur ekki birt meginniðurstöður mun hann þá upplýsa þingið um hvað þarna er að finna því að nú hefur verið lögð fram fyrirspurn, bæði í efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd, um þessa skýrslu? Telur ráðherrann ekki rétt þó ekki væri nema í ljósi orða þessarar ríkisstjórnar, um mikilvægi opinnar og gagnsærrar stjórnsýslu, og þess að upplýsa eigi þjóð og þing um stöðu mála, að hann upplýsi a.m.k. þingið og helst þjóðina um hver raunveruleg staða efnahagsmála í landinu er.