137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

skýrsla um stöðu íslensku bankanna.

[13:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta snýst ekki um að ríkisstjórnin hafi mótað einhverja stefnu eða breytt um stefnu í þessu. Ég hef reynt að gera skilmerkilega grein fyrir því hvernig verklagið var ákveðið í þessu tilviki. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður og þingheimur allur sé mér sammála um að hér sé um mikilvæga hagsmuni að tefla. Aðkoma mín sem fjármálaráðherra að þessu er fyrst og fremst sú að ég hef sett málin í farveg hvað það varðar að gæta hagsmuna ríkisins sem eiganda nýju bankanna og að sjálfsögðu er það okkar keppikefli að uppgjörið gagnvart okkur verði eins hagstætt og gagnaðili getur fallist á. Það mun skipta miklu máli að það takist vel og að niðurstaðan verði samkomulagsatriði en það finnist þá farvegur fyrir það að útkljá málin á einhvern skilvirkan hátt sem taki ekki allt of langan tíma.

Varðandi það að reiða fram upplýsingar, t.d. fyrir þingnefndir, þá er sjálfsagt mál að taka það til skoðunar. Fjármálaeftirlitið hefur stjórnað þeim þætti málsins, gaf út fréttatilkynninguna um niðurstöðu yfirmatsins og hefur svarað fyrir það hvernig með málið er farið að öðru leyti.