137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

landbúnaðarháskólarnir.

[13:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur alla tíð verið mikill áhugamaður um landbúnaðarháskólana okkar, bæði á Hvanneyri og Hólaskóla, og er það vel. Nú liggur fyrir í stjórnarsáttmálanum að eftir öran vöxt í háskólasamfélaginu á umliðnum árum, eins og það er réttilega orðað, eigi m.a. að endurmeta skipulag og rekstur háskólanna. Ég tel rétt að það verði upplýst af hálfu landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hver afstaða hans er varðandi hugsanlega sameiningu landbúnaðarháskólanna við aðra háskóla, hvort sem það er Háskólinn á Akureyri eða Háskóli Íslands, hver hans afstaða er og hvort hann muni fylgja eftir þeirri skoðun sinni og því hugðarefni að landbúnaðarháskólarnir hverfi aftur undir landbúnaðarráðuneytið. Eins og við vitum voru bæði samstarfsflokkur hans, Samfylkingin, og Sjálfstæðisflokkurinn þeirrar skoðunar að háskólakerfið ætti allt að vera undir menntamálaráðuneytinu. Ég vil gjarnan fá afstöðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessu máli.