137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

jöklabréf.

[13:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi nefnir hér annan anga þessa máls, sem er alveg hárrétt, að íslensk skuldabréf eru í höndum erlendra aðila vegna þess að lánasamningar eða lánavöndlar voru settir til tryggingar í viðskiptum í dótturfélögum íslenskra banka erlendis. Það er unnið í því eftir því sem hægt er að ná þeim bréfum heim, t.d. í tilviki Íbúðalánasjóðs í gegnum Lúxemborg, en það er tafsöm vinna og þarf að sorterast út í samráði við þarlend stjórnvöld og þá sem fara með málefni viðkomandi banka eða þrotabúa í hverju tilviki fyrir sig. Sama gildir um lán nokkurra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja sem illu heilli lentu í höndum erlendra banka þvert á það sem viðkomandi fyrirtækjum hafði reyndar verið lofað að gert yrði.

Þau eru mörg óleyst flækjumálin af þessu tagi sem utan endis mætti telja hérna upp. Og ég tek undir með hv. málshefjanda að því fyrr sem þessir hlutir skýrast og upplýsingarnar koma upp á borðið því betra. Það rekur auðvitað (Forseti hringir.) að því og sumt af þessu er núna undir í þeim rannsóknum sem annars vegar Alþingi og hins vegar sérskipaður saksóknari hafa nú með höndum.