137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

heimahjúkrun.

[13:53]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Í þessum tilvitnuðu orðum í stjórnarsáttmála er vikið að þeirri sýn ríkisstjórnarflokkanna að fella beri þjónustu við aldraða á eina hendi og færa hana í lok kjörtímabils í hendur sveitarfélaga.

Það er augljóslega ekki þannig að félags- og tryggingamálaráðuneytið eigi yfir að ráða stofnunum sem farið geti með þessi verkefni eins og staðan er núna heldur sjáum við það fyrir okkur að sett verði á fót verkefnisstjórn sem hafi með höndum samþættingu þessara verkefna og að undirbúa með skilvirkum hætti samþættingu verkefnanna og síðan yfirfærslu þeirra til sveitarfélaga. Að því verður unnið í skrefum á kjörtímabilinu. Þegar er hafið samráð við heilbrigðisráðuneytið um þessa yfirfærslu og ég á von á að þessi samvinna verði í góðu samstarfi á milli ráðuneytanna.

Markmiðið er auðvitað að tryggja góða og samfellda þjónustu við aldraða þannig að sú þjónusta sem í dag er í höndum annars vegar sveitarfélaga og hins vegar ríkisins og svo jafnframt í höndum aðila sem vinna fyrir ólík ráðuneyti færist öll á eina hendi. Í því eru augljós samlegðaráhrif og það er líka mjög mikilvægt fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda að skipulag hennar og veiting hennar sé á einni hendi. Þannig er mest hagræði af veitingu þjónustunnar og við auðveldum sem kostur er þeim sem þurfa á henni að halda að njóta hennar.